Um það bil ein skotárás er gerð í bandarískum skóla í hverri viku að meðaltali. Þetta kemur fram í tölum frá stofnuninni Everytown for Gun Safety sem berst fyrir því að takmarka byssunotkun í landinu.
AFP-fréttastofan greinir frá þessu í tilefni af skotárásinni sem var gerð í framhaldsskóla í Texas í dag þar sem tíu voru drepnir og tíu til viðbótar særðust eftir skothríð 17 ára nemanda í upphafi skóladagsins.
Fram kemur að um 33 þúsund manns deyi af völdum byssuofbeldis í Bandaríkjunum á ári hverju. Margar skotárásir í skólum komast ekki einu sinni á síður stærstu fjölmiðlanna nema hlutfall látinna sé hátt.
Samkvæmt gagnagrunni sem blaðið The Washington Post tók saman hafa yfir 214 þúsund grunnskólanemar upplifað skotárás í skólanum sínum í Bandaríkjunum frá árinu 1999.
Að minnsta kosti 139 nemendur, kennarar og aðrir hafa verið drepnir í slíkum skotárásunum á sama tímabili.
Um þrír mánuðir eru liðnir síðan ungur maður vopnaður hálfsjálfvirkum vopnum myrti 17 manns í gamla framhaldsskólanum sínum í Flórída.
Síðan þá hefur fjöldi Bandaríkjamanna barist fyrir hertri byssulöggjöf í landinu. Fjöldagöngur voru farnar víðsvegar um Bandaríkin og í öðrum löndum 24. mars. Talið er að þátttakendur hafi verið um tvær milljónir.