Lögregla hefur fundið hlut í Santa Fe-framhaldsskólanum í Santa Fe í Texas í Bandaríkjunum sem talinn er vera sprengjubúnaður. Sprengjusveit lögregluyfirvalda í Santa Fe hefur verið kölluð á vettvang til að kanna búnaðinn og athafnar sig nú á staðnum.
Einnig er rannsakaður meintur sprengjubúnaður í nágrenni við skólann, utan skólalóðarinnar.
Að minnsta kosti átta eru látnir eftir skotárás sem hófst um klukkan átta að morgni að bandarískum tíma. Lögreglustjóri borgarinnar hefur staðfest að átta séu látnir. Flest fórnarlambanna voru nemendur við skólann. Fjöldi særðra liggur ekki fyrir, en einn hinna særðu er lögreglumaður.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði landa sína fyrir skömmu og sendi samúðarkveðjur til þeirra sem ættu um sárt að binda vegna árásarinnar.
„Við stöndum með ykkur á þessari hryggðarstund,“ sagði hann.Trump sagði yfirvöld munu gera allt sem þeim væri unnt til að tryggja öryggi borgaranna og koma í veg fyrir að skotvopn kæmust í hendur þeirra sem ógn stæði af gagnvart þeim sjálfum og öðrum.
Maður á táningsaldri er í haldi lögreglu vegna árásarinnar og yfirheyrslur standa yfir öðrum einstaklingi sem grunur er um að hafi tengsl við hana. Ekki liggur fyrir hvort árásarmaðurinn er nemandi í skólanum.
Maðurinn er sagður hafa hafið skothríð við upphaf kennslu, um klukkan átta að morgni að bandarískum tíma. Í fjölmiðlum vestanhafs er hann sagður hafa gengið inn í skólastofu þar sem myndlistakennsla var hafin vopnaður haglabyssu.