Neyðarfundur vegna ebólu í Kongó

Ebólufaraldurinn sem varð í Vestur-Afríku 2014 hafði alvarlegar afleiðingar fyrir …
Ebólufaraldurinn sem varð í Vestur-Afríku 2014 hafði alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa svæðisins, en mikil smithætta er vegna sjúkdómsins. Ljósmynd/CELLOU BINANI

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mun halda neyðarfund vegna útbreiðslu ebólusmita í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í dag, en þar mun vera rætt hvort ástæða sé til þess að að skilgreina ástandið sem alþjóðlega lýðheilsuvá.

Stofnunin segir í tilkynningu á heimasíðu sinni að upplýsingar um útbreiðslu sjúkdómsins séu enn af skornum skammti og að rannsóknir standi enn yfir. Þá telur stofnunin að staðfest smit í Mbandaka, sem er stórt þéttbýlissvæði við helstu samgönguæðar landsins, auki hættuna á að smit berist um Lýðstjórnarlýðveldið Kongó og til nærliggjandi ríkja.

Í áhættumati Alþjóða heilbrigðisstofnuninarinnar er hættustigið innan Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó talið mjög hátt, hættustig nærliggjandi ríkja hátt, en alþjóðlegt hættustig lágt. Grannt verði þó fylgst með þróun mála og áhættumat endurskoðað með tilliti til nýrra upplýsinga.

Vegna stöðunnar hefur Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalritari alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, boðað til fundar neyðarnefndar í dag til þess að meta hvort ebólusmitin skapi alþjóðlega lýðheilsuvá.

Ebóla hefur verið greind í borginni Mbandaka í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
Ebóla hefur verið greind í borginni Mbandaka í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert