Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa nafngreint manninn sem er í haldi lögreglu í Texas, grunaður um skotárás í Santa Fe-framhaldsskólanum í Santa Fe. Hinn grunaði er sagður Dimitrios Pagourtzis, 17 ára gamall nemandi við skólann.
Annar einstaklingur, 18 ára, er í haldi lögreglu og er sagður vitorðsmaður hins fyrrnefnda. Hann er þó ekki talinn hafa borið skotvopn.
Tíu eru látnir eftir árásina og tíu særðir. Þar á meðal er einn lögreglumaður.
Árásarmaðurinn er einnig sagður hafa særst sjálfur og fram hefur komið að hann hafi haft hug á því að fremja sjálfsvíg á vettvangi árásarinnar. Þetta kom fram í máli Greg Abbott, ríkisstjóra Texas á blaðamannafundi í dag. Sagði hann að upplýsingar í dagbókum á tölvu og í síma árásarmannsins staðfestu þetta.
„Eins og þið vitið, þá gaf hann sig fram og viðurkenndi á staðnum að hann hefði ekki haft hugrekki til að fremja sjálfsvíg,“ sagði Abbott.
Pagourtzis er sagður hafa borið skammbyssu, haglabyssu og rörasprengur þegar hann hóf skotárásina við upphaf kennslu, klukkan átta að morgni að bandarískum tíma.
Abbot upplýsti á blaðamannafundinum að árásarmaðurinn hefði komið sprengjum fyrir á heimili sínu, þ.á m. Mólótov-kokteil, skotvopnin sem notuð voru hafi verið lögleg og í eigu föður hans.
„Ég hef engar upplýsingar um það hvort faðir hans vissi að sonur hans hefði komið höndum sínum yfir þessi vopn,“ bætti Abbot við.
„Lögreglumenn komu að blóðugum vettvangi í skólanum. Hann virðist hafa notað fjölmargar rörasprengjur en við vitum ekki fyrir víst hvort einhver þeirra sprakk,“ sagði lögreglumaður við dagblaðið The Houston Chronicle.