Ebóla ekki alþjóðleg vá

Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, aðal­rit­ari Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar, boðaði til fund­ar neyðar­nefnd­ar í …
Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, aðal­rit­ari Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar, boðaði til fund­ar neyðar­nefnd­ar í gær til þess að meta hvort ebólu­smit­in skapi alþjóðlega lýðheilsu­vá. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur birt niðurstöður neyðarfundar sem haldinn var í gær vegna ebólusmita í Lýðstjórn­ar­lýðveld­inu Kongó. Á fundinum var rætt um hvort skilgreina ætti ástandið sem alþjóðlega lýheilsuvá. Niðurstaða fundarins var að á þessu stigi uppfyllir ástandið ekki þær kröfur sem gerðar eru til þess að slíkri yfirlýsingu sé beitt.

8. maí var stofnuninni tilkynnt af heilbrigðisráðuneyti Lýðstjórn­ar­lýðveld­isins að tvö staðfest tilvik væru um ebólu í Bikoro. Síðan hafa tilvik einnig verið staðfest í Iboko og Mbandaka. Frá 4. apríl til 17. maí var tilkynnt um 45 ebólusmit og 25 dauðsföll vegna ebólu.

Eftir að greindist ebólusmit í borginni Mbandaka hefur verið talið að eðli málsins hafi breyst þar sem veiran sé þá komin á þéttbýlissvæði við mikilvægar samgönguæðar sem eykur líkur á útbreiðslu sjúkdómsins.

Níu nágrannaríkjum Lýðstjórn­ar­lýðveld­isins Kongó hefur verið tilkynnt af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni að gert sé ráð fyrir mikilli hættu á að ebóla berist til þeirra og hefur stofnunin sent af stað mannskap og búnað til þess að mæta þeirri hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert