Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur birt niðurstöður neyðarfundar sem haldinn var í gær vegna ebólusmita í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Á fundinum var rætt um hvort skilgreina ætti ástandið sem alþjóðlega lýheilsuvá. Niðurstaða fundarins var að á þessu stigi uppfyllir ástandið ekki þær kröfur sem gerðar eru til þess að slíkri yfirlýsingu sé beitt.
8. maí var stofnuninni tilkynnt af heilbrigðisráðuneyti Lýðstjórnarlýðveldisins að tvö staðfest tilvik væru um ebólu í Bikoro. Síðan hafa tilvik einnig verið staðfest í Iboko og Mbandaka. Frá 4. apríl til 17. maí var tilkynnt um 45 ebólusmit og 25 dauðsföll vegna ebólu.
Eftir að greindist ebólusmit í borginni Mbandaka hefur verið talið að eðli málsins hafi breyst þar sem veiran sé þá komin á þéttbýlissvæði við mikilvægar samgönguæðar sem eykur líkur á útbreiðslu sjúkdómsins.
Níu nágrannaríkjum Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó hefur verið tilkynnt af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni að gert sé ráð fyrir mikilli hættu á að ebóla berist til þeirra og hefur stofnunin sent af stað mannskap og búnað til þess að mæta þeirri hættu.