Frétti af skotárásinni á CNN

Abdul Aziz (t.h.) fer með bænir ásamt vinum sínum eftir …
Abdul Aziz (t.h.) fer með bænir ásamt vinum sínum eftir að hafa frétt af dauða dóttur sinnar í skotárásinni. AFP

Abdul Aziz frétti af skotárásinni sem dóttir hans lést í í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni CNN þar sem hann var staddur í órafjarlægð í heimalandinu sínu Pakistan. 

Á þessum ruglingslegu fyrstu augnablikum og þeirri hryllingi sem hann var að upplifa hringdi hann í örvæntingu ítrekað í síma dóttur sinnar, Sabika Sheikh. En enginn svaraði.

„Ég hélt áfram að hringja í hana og senda henni skilaboð á WhatsApp. Aldrei áður hefur dóttir mín ekki svarað mér,“ segir Aziz við fréttamann AFP og berst við tárin. Hann er staddur í hafnarborginni Karachi og það eru aðeins nokkrar klukkustundir síðan að dóttir hans lést. 

„Við erum enn í afneitun. Þetta er eins og martröð,“ segir Aziz. Eiginkona hans situr skammt frá og er augljóslega í áfalli. Hún kemur ekki upp orði. Við hlið hennar sitja ástvinir og reyna að hugga hana. 

Abdul Aziz, fyrir miðri mynd, í hópi ástvina sinna í …
Abdul Aziz, fyrir miðri mynd, í hópi ástvina sinna í Pakistan. AFP

Sheikh var skiptinemi í Santa Fe-framhaldsskólanum í Texas og var meðal þeirra sem skotnir voru til bana í árás eins nemandans í gærmorgun. Árásarmaðurinn mætti vopnaður haglabyssu og skammbyssu í skólann um morguninn og áður en yfir lauk hafði hann felld tíu og sært tíu til viðbótar.

Margir samlandar Aziz hafa sýnt honum djúpa samúð vegna dauða dóttur hans sem hafði verið í Bandaríkjunum í tíu mánuði og átti að snúa aftur heim eftir örfáar vikur.

Sheikh var afburðanemandi. Hún átti sér það draum að starfa í utanríkisþjónustu Pakistans. Hún hafði ætlað sér að koma aftur heim fyrir lok föstu múslima og fagna þeim tímamótum í faðmi ástvina sinna. „Hún ætlaði að koma bráðlega,“ segir faðir hennar. „Það er almennt talið að það sé öruggt að búa í Bandaríkjunum en annað hefur komið á daginn.“

Ættingjar Sabika söfnuðust saman á heimili foreldra hennar í Pakistan.
Ættingjar Sabika söfnuðust saman á heimili foreldra hennar í Pakistan. AFP

Árásarmaðurinn Dimitrios Pagourtzis er sautján ára. Hann gekk í Santa Fe-framhaldsskólann og var yfirbugaður af öryggisvörðum í skólanum fljótlega eftir að hann hóf árásina. Hann hefur sagt lögreglu að hann hafi valið fórnarlömb sín og þyrmt lífi þeirra sem honum líkaði vel við. Í Texas er hægt að dæma fólk til dauða og gæti hann því átt dauðadóm yfir höfði sér. 

Um er að ræða 22. skotárásina í bandarískum skóla það sem af er ári. Á hverju ári deyja um 30 þúsund manns af skotsárum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir dauða dóttur sinnar vonar Aziz að Pakistanar verði ekki fráhverfir því að feta í fótspor henar og sækja sér menntun út fyrir landssteinana, svo sem í Bandaríkjunum, Bretlandi eða Kína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert