Hlífði þeim sem hann kunni vel við

Dimitrios Pagourtzis var vopnaður bæði haglabyssu og skammbyssu.
Dimitrios Pagourtzis var vopnaður bæði haglabyssu og skammbyssu. AFP

Hinn sautján ára gamli Dimitrios Pagourtzis, sem grunaður er um að hafa skotið tíu manns til bana í framhaldsskóla í Texas í gær, hefur viðurkennt að hann valdi fórnarlömb sín og segist ekki hafa skotið ekki á þá sem hann kunni vel við.

Í ítarlegri frétt um málið á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN segir að Pagourtzis hafi sýnt lögreglunni samstarfsvilja en hann var handtekinn í kjölfar árásarinnar. Hann var sjálfur nemandi við Santa Fe-skólann þar sem hann framdi voðaverk sitt í gær, vopnaður haglabyssu og skammbyssu. Í árásinni létust níu nemendur og einn kennari og auk þess særðist annar tugur manna. Santa Fe-skólinn er skammt frá Houston.

Nemendur við skólann leituðu skjóls í örvæntingu er þeir heyrðu fyrstu skothvellina við upphaf skóladags í gær. 

Byssurnar sem Pagourtzis notaði voru í eigu föður hans. Tveir öryggisverðir í skólanum yfirbuguðu hann skömmu eftir að árásin hófst.

Tíu létust í árásinni og tíu særðust.
Tíu létust í árásinni og tíu særðust. AFP

CNN segir staðfest að meðal hinna látnu sé skiptinemi frá Pakistan. Þá hafi forfallakennari, Cynthia Tisdale, einnig fallið í árásinni.

Samnemendur Pagourtzis hafa lýst honum sem einrænum. Fáir virðast hafa þekkt hann vel.

Lögreglan hefur m.a. lagt hald á tölvur, dagbækur og farsíma í eigu árásarmannsins. Þá fann hún einnig sprengjubúnað, m.a. rörasprengju fulla af nöglum í og við skólann.

Pagourtzis hefur verið ákærður fyrir morð og þar sem dauðarefsingar eru enn leyfðar í Texas gæti hann átt yfir höfði sér dauðadóm, að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, segir árásina eina þá viðbjóðslegustu sem gerð hafi verið í sögu Texasríkis. „Ekkert getur undirbúið foreldra fyrir að missa barn sitt,“ sagði Abbott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert