Hrópaði „vúhú!“ og skaut

Blóm og tuskudýr hafa m.a. verið lögð á skólalóð Santa …
Blóm og tuskudýr hafa m.a. verið lögð á skólalóð Santa Fe-skólans til minningar um fórnarlömb árásarinnar. AFP

Ein af þeim sem lést í skotárás í framhaldsskóla í Texas á föstudag var stúlka sem árásarmaðurinn hafði gengið á eftir með grasið í skónum, án árangurs mánuðum saman. Fyrir viku hafði hún gripið til þess ráðs, til að losna undan áreiti hans, að standa upp í kennslustund og segja í vitna viðurvist að hún vildi ekki fara á stefnumót með honum.

Sadie Baze, segir að dóttir sín, Shana Fisher, hafi verið skotin til bana af árásarmanninum Dimitrios Pagourtzis í kennslustofu í Santa Fe-skólanum á föstudag. Pagourtzis er sautján ára og er í haldi lögreglu. Hann segist hafa valið fórnarlömb sín og þyrmt lífi þeirra sem hann kunni vel við.

Pagourtzis var sjálfur nemandi í skólanum. Hann fór vopnaður haglabyssu og skammbyssu í skólann á föstudagsmorgun og hóf skothríð. Tíu létust og þrettán særðust í árásinni sem er sú 22. sem gerð er í bandarískum skóla á þessu ári.

Baze segir að Pagourtzis hafi ofsótt dóttur sína, sem varð sextán ára á fimmtudag, daginn áður hún lést. „Eitt skotið var ætlað dóttur minni. Og nú mun hún aldrei aftur koma heim,“ segir Baze í samtali við CNN.

Isabelle Laymance er ein þeirra sem komst lífs af. Hún segist hafa falið sig inni í skáp er árásarmaðurinn hóf skothríð. Móðir hennar skrifar um reynslu dóttur sinnar á Facebook og hefur eftir henni að Pagourtzis hafi hrópað „vúhú!“ er hann hleypti af skotum í næstu kennslusktofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert