Ægifagurt en stórhættulegt

Gufustrókar stíga upp úr Kyrrahafinu er hraunið flæðir út í …
Gufustrókar stíga upp úr Kyrrahafinu er hraunið flæðir út í sjó. AFP

Hraun úr Kilauea-eldfjallinu á Hawaii flæðir nú til sjávar. Þetta er tilkomumikil sjón en gosið, sem var hógvært í byrjun, er enn að færast í aukana og hætta vegna þess sömuleiðis. 

Eitraðir gufustrókar standa upp úr Kyrrahafinu þar sem hraunstraumurinn fellur til sjávar við Stóru-eyju (Big Island). Brennandi heit gufan er hættuleg rétt eins og hraunstraumurinn sjálfur, brennisteinsdíoxíðið og askan sem íbúum eyjunnar hefur frá því að gosið hófst 3. maí stafað ógn af.

Í gær opnaðist sprunga í hluta farvegs hraunelfarinnar og rann hraun ofan í hana og „inn í neðanjarðar tómarúm“, að því er sagði í yfirlýsingu frá Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna. 

Eldfjallið Kilauea er eitt það virkasta á jörðinni og eitt fimm eldfjalla á þessari stærstu eyju Hawaii-eyjaklasans.

Að minnsta kosti 2.000 manns hafa yfirgefið heimili sín vegna eldgossins. Hraunið hefur þegar eyðilagt um fjörutíu byggingar. Þúsundir íbúa til viðbótar óttast nú að þurfa að flýja undan hrauninu, ekki aðeins vegna hættu á að straumurinn gleypi hús þeirra heldur vegna þess að þeir gætu orðið innlyksa er glóandi hraun fer yfir vegi sem þeir nota til að komast til vinnu og skóla. 

Hraunelfurin er ægifögur en stórhættuleg.
Hraunelfurin er ægifögur en stórhættuleg. AFP

Tveir hraunstraumar náðu til sjávar um helgina og á myndum og myndböndum af vettvangi má sjá hvernig hraunið, sem er þunnfljótandi, rennur í hafið eins og deig. Þegar vatnið og hraunið mætast spýtast m.a. litlir hraunmolar upp úr hafinu. Gufan er einnig mjög eitruð en í henni er m.a. að finna saltsýru og örsmáar glerkenndar gosagnir.

Ferðamenn fylgjast með því þegar hraunstraumurinn fellur í Kyrrahafið.
Ferðamenn fylgjast með því þegar hraunstraumurinn fellur í Kyrrahafið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert