Loka virkjun vegna eldgossins

Að minnsta kosti 2.000 manns hafa yf­ir­gefið heim­ili sín vegna …
Að minnsta kosti 2.000 manns hafa yf­ir­gefið heim­ili sín vegna eld­goss­ins sem hófst 3. maí. AFP

Hraunið úr Ki­lau­ea-eld­fjall­inu á Hawaii nálgast nú jarðvarmavirkjun á eyjunni og hafa starfsmenn virkjunarinnar þurft að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að banvænt vetnissúlfat-gas dreifist um eyjuna. Um 30% af raforkunotkun eyjunnar kemur frá Puna-jarðvarmavirkjuninni.

Allt eldfimt efni hefur verið fjarlægt af virkjanasvæðinu og brunnar virkjunarinnar hafa verið fylltir af köldu vatni. Stefnt er að því að loka fyrir brunnana á morgun til að koma í veg fyrir að hraun flæði ofan í þá. Ef það gerist losnar um gasið.

BBC greinir frá því að hraunið hafi náð inn á svæði virkjunarinnar í gær og nálgast nú brunnana hægt en örugglega og er í um 274 metra fjarlægð frá næsta brunni, sem er um 1,6 kílómetrar að dýpt.

„Það er ekki auðvelt að spá fyrir um hvert hraunið mun fara og hvenær það mun gerast,“ segir Tom Travis, fulltrúi almannavarna á Hawaii.

Að minnsta kosti 2.000 manns hafa yf­ir­gefið heim­ili sín vegna eld­goss­ins sem hófst 3. maí. Hraunið hef­ur þegar eyðilagt um fjöru­tíu bygg­ing­ar. Þúsund­ir íbúa til viðbót­ar ótt­ast nú að þurfa að flýja und­an hraun­inu. Hraunið flæðir nú til sjáv­ar og eitraðir gufustrók­ar standa upp úr Kyrra­haf­inu þar sem hraun­straum­ur­inn fell­ur til sjáv­ar við Stóru eyju (Big Is­land).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert