Zuckerberg biður Evrópubúa afsökunar

Stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, kom fyrir Evrópuþingið í dag.
Stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, kom fyrir Evrópuþingið í dag. AFP

Mark Zucker­berg, stofn­andi og framkvæmdastjóri Face­book, baðst afsökunar þegar hann sat fyrir svörum á fundi með þing­mönnum Evr­ópuþings­ins í Brussel í dag.

Þing­menn ESB og breska þings­ins hafa þrýst á Zucker­berg að svara fyrir gjörðir Facebook í kjöl­far hneykslis­máls­ins sem varð er fjöl­miðlar greindu frá því að fyr­ir­tækið Cambridge Ana­lytica hefði nýtt per­sónu­upp­lýs­ing­ar 87 milljóna Face­book-not­enda til að aðstoða Don­ald Trump við að hafa sig­ur í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um.

Viðurkenndi mistök og baðst afsökunar

Zuckerberg sagði meðal annars að samfélagsmiðlarisinn væri að undirbúa stórar aðgerðir til að koma í veg fyrir að hægt væri að nota persónuupplýsingar notenda líkt og gert var í kosningabaráttunni árið 2016. Þá sagði hann ljóst að á síðustu tveimur árum hefðu stjórnendur Facebook ekki gert nóg til að koma í veg fyrir að persónuupplýsingar notenda væru notaðar í skaðlegum tilgangi.

„Það voru mistök og ég biðst afsökunar á því,“ sagði Zuckerberg.

Hann segir að mistökin hafi aðallega falist í því að Facebook hafi ekki sinnt eftirliti þegar kom að falsfréttum á Facebook, afskiptum erlendra aðila að forsetakosningunum í Bandaríkjunum og misnotkun á persónuupplýsingum Facebook-notenda.

Zuckerberg upplýsti að 2,7 milljónir evrópskra Facebook-notenda væru meðal þeirra sem Cambridge Analytica notfærði sér.

Fagnar nýjum lögum ESB um persónuupplýsingar

Facebook undirbýr nú ýmsar breytingar til að koma í veg fyrir að persónuupplýsingar um notendur verði nýttar. Meðal nýjunga er hnappur sem notendur geta ýtt á sem eyðir öllum upplýsingum um hvað notendurnir hafa verið að skoða á Facebook.

Ný lög Evr­ópu­sam­bands­ins um vernd ein­stak­linga í tengsl­um við vinnslu per­sónu­upp­lýs­inga og frjálsa miðlun slíkra upp­lýs­inga (GDPR) taka gildi eftir þrjá daga og segist Zuckerberg taka löggjöfinni fagnandi og að Facebook sé með svipaða innleiðingu í bígerð.

Mark Zuckerberg ásamt Antonio Tajani, forseta Evrópuþingsins.
Mark Zuckerberg ásamt Antonio Tajani, forseta Evrópuþingsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert