Hraunstraumurinn frá Kilauea-eldfjallinu á Hawaii nálgast nú orkuver sem yfirvöld hafa reynt að verja fyrir eldgosinu. Ekki er talið að Puna-jarðvarmavirkjunin sé enn í hættu en óttast er að hraunið muni jafnvel ná til virkjunarinnar.
Yfirvöld fylgjast grannt með enda mikið í húfi. Í varúðarskyni hafa eldfim efni verið flutt úr virkjuninni og kalt vatn notað á borholurnar.
Eldfjallið Kilauea er eitt það virkasta á jörðinni og eitt fimm eldfjalla á þessari stærstu eyju Hawaii-eyjaklasans. Að minnsta kosti 2.000 manns hafa yfirgefið heimili sín vegna eldgossins.