Banvænn faraldur ebólu í Austur-Kongó gæti mögulega breiðst út víðar að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Stefnt er að því að bólusetja um 10 þúsund íbúa landsins á innan við mánuði.
„Við stöndum nú á faraldursfræðilegum hnífsoddi,“ segir Peter Salama hjá WHO á fundi um ebólufaraldurinn í Austur-Kongó. Veiran hefur nú þegar dregið 27 manns til dauða þar í landi.
„Það getur brugðið til beggja vona á næstu vikum og við vinnum að því myrkrana á milli að reyna að stýra þessu í rétta átt,“ sagði hann í samtali við AFP-fréttastofuna að fundi loknum.
WHO segir nú 58 tilfelli ebólu staðfest frá því í byrjun apríl. Um 600 mál til viðbótar eru til rannsóknar.
Ebóla er veirusýking sem smitast aðallega með líkamsvessum. Hún er mjög smitandi og lífshættuleg.
Faraldi var lýst yfir í Austur-Kongó þann 8. maí. Hann hófst á dreifbýlum svæðum í norðvestanverðu landinu. Fyrir um viku var fyrsta tilfellið í þéttbýli staðfest í borginni Mbandaka sem er í alfaraleið til höfuðborgarinnar Kinshasa. Nú hafa sjö tilfelli verið staðfest í og við Mbandaka. WHO segir að þegar veirusýkingin greinist í þéttbýli geti hún breiðst hratt út. Frá Mbandaka liggur á til Lýðveldisins Kongó og Mið-Afríkulýðveldisins og hefur það vakið ugg um að ebóla breiðist út fyrir landssteinana.
Þá hafa fimm heilbrigðisstarfsmenn greinst með veiruna.
Þegar faraldur ebólu braust síðast út í Vestur-Afríku á árunum 2013-2015 létust um 11.300 manns. Er sá faraldur kom fyrst upp telja margir að WHO hafi brugðist of seint við. Yfirmaður WHO í Afríku segir í samtali við AFP að stofnunin hafi lært af þeirri biturri reynslu.