Morgan Freeman sakaður um áreitni

Átta konur hafa stigið fram og sakað Morgan Freeman um …
Átta konur hafa stigið fram og sakað Morgan Freeman um kynferðislega áreitni. AFP

Átta konur hafa sakað bandaríska leikarann Morgan Freeman um kynferðislega áreitni. Þetta kemur fram í nýrri frétt CNN. Í fréttinni lýsa sextán manns því hvernig Freeman mun hafa áreitt konurnar við töku kvikmynda eða í tengslum við kynningarviðburði tengda myndunum.

Ein kvennanna starfaði með Freeman að kvikmyndinni „Going in style“ frá árinu 2015. Lýsir hún því að Freeman hafi snert hana ítrekað og nuddað bak hennar án þess að hún hafi fengið leyfi. Einnig segir hún Freeman hafa haft uppi óviðeigandi ummæli um útlit hennar.

Konan sagði Freeman margsinnis hafa reynt að lyfta pilsi hennar og spurt hvort hún klæddist undirfötum. 

Óskráð regla um klæðaburð kringum Freeman

Einn háttsetra kvikmyndagerðarmanna við gerð kvikmyndarinnar „Now you see me“ frá árinu 2013 sagði í samtali við CNN að óskráð regla væri meðal fólks á tökustöðum að klæðast m.a. ekki bolum sem drægju fram brjóst þeirra eða þröngum fötum ef vitað væri að Freeman yrði á tökustaðnum.

#MeToo-hreyfingin kviknaði á síðasta ári eftir að fjallað var um kynferðislega áreitni kvikmyndaframleiðandans Harvey Wienstein. Mikil umræða varð í kjölfarið um áreitni af ýmsum stöðum, ekki síst á vinnustöðum. Freeman bætist í stóran hóp leikara og annarra kvikmyndagerðarmanna sem sakaðir hafa verið um kynferðislega áreitni og aðra óviðeigandi hegðun í kjölfarið.

Freeman hefur ekki tjáð sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert