Milli 150 og 180 íbúðarhús í sveitarfélaginu Re í Vestfold-fylki, suður af Ósló, hafa verið rýmd vegna stórbruna í húsnæði endurvinnslunnar Revac sem geisað hefur í sjö klukkustundir þegar þetta er skrifað og hefur slökkvilið á svæðinu enga stjórn á eldinum.
„Mestur hluti hússins er ónýtur. Allur tiltækur mannskapur frá fjórum slökkvistöðvum á svæðinu er á staðnum,“ segir Einar Flogeland, varðstjóri slökkviliðisins í Vestfold, í samtali við dagblaðið VG sem greinir nú frá málinu ásamt ríkisútvarpinu NRK og staðbundnum fjölmiðlum í Vestfold.
Lögreglan hefur farið hús úr húsi í nágrennni Revac og beðið fólk að yfirgefa heimili sín og koma sér í örugga fjarlægð en reykurinn frá eldsvoðanum kemur að hluta til frá plastefnum og er baneitraður.
„Mannskapurinn frá slökkviliðinu var að færa sig fjær byggingunni rétt í þessu af ótta við að hún hrynji hreinlega,“ sagði Jan Petter Bonde hjá Vestviken-neyðarlínunni í Tønsberg í samtali við mbl.is rétt í þessu en þar á bæ er tekið við öllum neyðarsímtölum á svæðinu. „Lögreglan hefur annast rýmingu húsa í nágrenninu en slökkviliðið hefur enn enga stjórn á brunanum,“ sagði Bonde sem svo þurfti að skella á blaðamann vegna neyðarsímtals sem barst um brunaneyðarnúmerið 110.
Bonde sýndi þó af sér þann höfðingsskap að hringja til baka og sagðist aðspurður ekki muna eftir jafnstórri slökkviliðsaðgerð á svæðinu þann tíma sem hann hefði starfað hjá neyðarlínunni og reyndar ekki alla sína ævi ef út í það væri farið. „Það eru allir hérna í þessu máli, við höfum ekki sinnt neinu öðru síðustu sjö tímana,“ sagði Bonde rétt áður en hann þurfti aftur að skella á vegna neyðarsímtals.