Remøya, Trysil, Revetal, Herøy, Ombo, Oppegård, Lommedalen. Nánast er sama hvar borið er niður í Suður-Noregi þessi dægrin, þar logar eldur. Upp undir 30 gráða hiti dag eftir dag syðst í landinu hefur ýtt mjög undir vá skógarelda og sannast þar hið fornkveðna að oft verður af litlum neista mikið bál.
Slökkviliðsmenn víða um suðurhluta Noregs hafa lagt nótt við dag síðan um helgina í baráttu við elda í skógum og stórfyrirtækjum en enn þá logar eldur í húsnæði endurvinnslunnar Revac í Vestfold sem kviknaði snemma í gærmorgun og mbl.is greindi frá.
Auk endurvinnslunnar kviknaði í Sefa-byggingunni svokölluðu í Sarpsborg, suður af Ósló, í nótt og þurfti að flytja rúmlega eitt hundrað nágranna hennar á brott vegna hættu á reykeitrun. Bygging þessi hýsti keilusal, líkamsræktarstöð og öldurhús og er enn óljóst um eldsupptök enda eldurinn rétt nýslökktur. Þurfti slökkvilið að beita sleggju til að brjótast inn til íbúa í hverfinu sem voru í fastasvefni eins og dagblaðið VG greindi frá.
Þá hafa skógareldar geisað víða, meðal annars í Trysil, Herøy og Ombo en síðastnefndi staðurinn er í Rogaland-fylki á vesturströndinni sem er þekkt fyrir flestar aðrar hamfarir en skógarelda. Ríkisútvarpið NRK greinir frá stöðu mála þar.
Fyrir tæpri klukkustund bárust fréttir af því að slökkvilið í Remøya í fylkinu Møre og Romsdal hefði náð stjórn á skógareldi þar en hann mun vera nyrstur þeirra elda sem nú loga í Noregi. Umfjöllun NRK um eldinn í Remøya.
Þyrlur með slökkvibúnað og mörg hundruð manna slökkvilið samanlagt hefur barist við eldana og lögregla verið seinþreytt til að minna Norðmenn á að nota alls ekki grill eða annan opinn eld í skóglendi Suður-Noregs á meðan hitabylgjan stendur yfir auk þess sem norska veðurstofan birtir viðvaranir um skógareldavá um allt suðurlandið þessa dagana.
Mikil mildi þykir að manntjón hafi ekki orðið í eldunum en slökkvilið flúði sem fætur toguðu í endurvinnslubrunanum í Vestfold í gær þegar útlit var fyrir að allt húsið hryndi skyndilega. Svo fór þó ekki.