Karlmaður skaut tvo lögreglumenn til bana og vegfaranda í belgísku borginni Liège í morgun og framdi síðan sjálfsvíg. Saksóknari sem annast rannsókn á hryðjuverkjum í Belgíu fer með rannsókn málsins.
Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust í árásinni en árásarmaðurinn tók einnig konu í gíslingu, samkvæmt fréttum belgískra fjölmiðla.
Talsmaður ríkissaksóknara, Eric Van Der Sypt, segir að vísbendingar séu um að árásin sé hryðjuverk.
Hátt viðbúnaðarstig er í gildi í Belgíu og hefur verið allt frá árinu 2016 en það ár létust 32 í árásum sem framdar voru af vígasamtökunum Ríki íslams.
Heimildir belgískra fjölmiðla herma að maðurinn hafi kallað Allahu Akbar (Guð er mikill) á arabísku meðan á árásinni stóð.
Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon, segir á Twitter að hryðjuverkadeild lögreglunnar fylgist grannt með og hugur hans sé hjá fórnarlömbum þessa viðurstyggilega glæps.
Fusillade à Liège. @CrisiscenterBE fait un aperçu de la situation.
— Jan Jambon (@JanJambon) May 29, 2018
Nos pensées sont avec les victimes de cet acte horrible. Nous sommes en train d’établir un aperçu de ce qui c’est déroulé exactement.
— Jan Jambon (@JanJambon) May 29, 2018