Hafði þegar fallið tvær hæðir

Fjölskylda drengsins sem flóttamaður frá Malí, Mamoudou Gassama, bjargaði þakkar honum fyrir hetjudáðina en faðir drengsins á yfir höfði sér ákæru fyrir vanrækslu. Hann hafði skilið drenginn, sem er fjögurra ára gamall, eftir einan heima á meðan hann fór í matvörubúðina.

Drengurinn yfirgaf Réunion, sem er frönsk eyja í Indlandshafi, fyrir þremur vikum en móðir hans er enn þar. Drengurinn flutti til pabba síns sem starfar í París og munu móðir hans og systkini flytja til þeirra feðga í júní.

Feðgarnir búa á sjöttu hæð fjölbýlishússins og hafði drengurinn þegar fallið tvær hæðir þegar hann náði taki á svalahandriði íbúðar á fjórðu hæð þegar Gassama, sem er nefndur köngulóarmaðurinn eftir björgunarafrekið, náði taki á honum. 

Þegar íbúi á fjórðu hæð spurði drenginn hvaðan hann hafi komið þá benti drengurinn upp, segir í frétt BBC. Móðir drengsins segir að faðirinn hafi ekki verið vanur að vera einn með drenginn og hann hafi áður skilið barnið eftir eitt heima.

„Ég get ekki réttlæt það sem eiginmaður minn gerði. Fólk segir að þetta geti komið fyrir hvern sem er og þetta hafi komið fyrir fleiri. Sonur minn var heppinn,“ segir hún. 

Eftir að hafa keypti inn tafðist faðirinn á leiðinni heim þar sem hann var að spila Pokemon Go, að sögn saksóknara.

Mamoudou Gassama.
Mamoudou Gassama. AFP

Ýmsir hafa velt fyrir sér viðbrögðum mannsins á svölunum í næstu íbúð á fjórðu hæð en hann virðist hafa verið svo nálægt að hann hefði getið togað drenginn yfir handriðið áður en Gassama kom honum til bjargar.

Nágranninn segir í viðtali við Le Parisien að hann hafi náð að halda í hönd drengsins en ekki náð að toga hann upp því skilrúm skilur svalirnar að. Hann hafi ekki viljað taka neina áhættu með því að sleppa hönd drengsins. 

Litli drengurinn er í umsjón franskra yfirvalda en faðir hans er algjörlega miður sín yfir því sem gerðist. Hann á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi og háa sekt fyrir vanrækslu.

Gassama er 22 ára gamall en hann fór sem unglingu frá bænum Yaguine í suðvesturhluta Malí árið 2013. Hann fór hefðbundna leið flóttamanna um Sahara-eyðimörkina, í gegnum Búrkína Fasó, Níger og Líbýu. Þaðan fór hann sjóleiðina til Ítalíu árið 2014. Siglingin yfir Miðjarðarhafið tókst í annarri tilraun. Í fyrra skiptið var bátnum snúið við af lögreglu.

Gassama sagði Emmanuel Macron forseta Frakklands frá því í gær að hann hafi ekki átt neinn samastað og enginn hafi viljað aðstoða hann.

Á flóttanum starfaði hann eitt ár í Líbýu þar sem flóttamenn eru oft fórnarlömb arðræningja og jafnvel seld í þrældóm. „Ég þjáðist mikið. Við eru oft fönguð og barin en ég gaf aldrei upp vonina,“ sagði hann við Macron á fundinum í gær þegar forsetinn hét honum frönskum ríkisborgararétti.

Hann sagði Macron að ástæðan fyrir því að hann hafi farið til Frakklands hafi verið sú að hann þekkti engan á Ítalíu en bróðir hans hafi búið í mörg ár í Frakklandi.

Í París hafi hann unnið svarta íhlaupavinnu við byggingarframkvæmdir og búið á gistiheimili í Montreuil-hverfinu, sem gengur undir nafninu litla Bamako vegna þess hversu margir íbúanna koma frá Malí. Hann hafði ekki sótt um hæli í Frakklandi og var ólöglegur í landinu. Á gistiheimilinu deilir hann herberginu með ættingjum og sefur á dýnu á gólfinu.

Í dag fékk hann dvalarleyfi í Frakklandi sem er fyrsta skrefið í átt að ríkisborgararétti og honum boðinn námssamningur hjá slökkviliði Parísar.

Frétt BBC

Húsið þar sem Gassama bjargaði litla drengnum.
Húsið þar sem Gassama bjargaði litla drengnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka