Utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevicius, hefur látið hafa eftir sér að það hafi verið „slæm hugmynd„ að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi. Fyrsti leikur fer fram í Moskvu 14. júní.
„Það er heimskulegt að halda heimsmeistaramótið í Rússlandi vegna þess að allt í landinu snýst um pólitík. Það er gott fyrir áróður þeirra að verða miðpunktur athyglinnar,“ sagði Linkevicius.
Eftir að Skripal-feðgin urðu fyrir taugagasárás í byrjun mars tilkynntu yfirvöld í Bretlandi og á Íslandi að ráðherrar frá löndunum myndu ekki koma á mótið í sumar. Linkevicius hefur ekki trú á frekari sameiginlegum aðgerðum gegn Rússum.
„Ég vonast hins vegar til þess að fleiri tjái sig um þetta.“