Rússneskur blaðamaður myrtur í Kiev

Rússneski blaðamaðurinn Arkady Babchenko.
Rússneski blaðamaðurinn Arkady Babchenko. AFP

Rússneski blaðamaðurinn Arkady Babchenko er látinn eftir að hafa verið skotinn á heimili sínu í Kiev í Úkraínu. Að sögn BBC greindi úkraínska lögreglan frá þessu.

Kona Babchenko kom að honum þar sem honum blæddi af sárum sínum í íbúð þeirra, en hann lést í sjúkrabíl á leiðinni á spítala.

Líklegt þykir að dauði Babchenko tengist starfi hans sem blaðamaður, en hann skrifaði um rússneska herflugvél sem fórst árið 2016. Hann hafði áður greint frá morðhótunum í kjölfar umfjöllunarinnar og af þeim sökum flutti hann frá heimalandi sínu.

Lögreglustjórinn í Kiev segir að lögregluna gruni að morðið tengist störfum hans.

Babchenko hafði löngum gagnrýnt stjórnvöld í Kreml og bauð sig meðal annars fram fyrir stjórnarandstöðuna í kosningum árið 2012, auk þess sem hann hefur gagnrýnt aðgerðir Rússa í Sýrlandi og austurhluta Úkraínu.

Í desember árið 2016 skrifaði Babchenko Facebook-færslu um flugvél sem brotlenti í Svartahafi. Um borð var kór Rauða hersins sem var á leiðinni til Sýrlands.

Í færslunni lýsti Babchenko Rússlandi sem árásaraðila og í kjölfarið bárust honum morð- og misnotkunarhótanir frá rússneskum stjórnvöldum og sagðist ekki lengur öruggur í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert