Maðurinn sem drap þrjá í belgísku borginni Liège í morgun réðst á tvær lögreglukonur vopnaður hnífi, náði af þeim byssunum og skaut þær. Hann skaut jafnframt 22 ára karlmann til bana með lögreglubyssu. Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi saksóknara í hádeginu.
Philippe Dulieu saksóknari segir að maðurinn hafi einnig tekið konu í gíslingu í skóla þar skammt frá eftir að hann réðst á lögreglu.
Árásin er álitin hryðjuverk en hún var gerð klukkan 10:30 að belgískum tíma, klukkan 8:30 að íslenskum tíma.
„Vopnaður hnífi elti sá grunaði og réðist á tvo lögreglumenn og notaði síðan þeirra eigin byssur til þess að drepa þá,“ Philippe Dulieu á blaðamannafundinum. „Hann hélt áfram fótgangandi, réðst á bíl sem lagt var í stæði en þar skaut hann á 22 ára gamlan mann sem sat í farþegasætinu. Ungi maðurinn lést,“ sagði Dulieu á fundinum.
„Hann hélt síðan áfram og fór inn í Leonie de Waha skólann. Hann tók konu sem þar starfar í gíslingu. Þegar lögregla kom á vettvang skaut hann á hana og særði nokkra áður en hann var drepinn,“ bætti Dulieu við.
Eric Van Der Sypt, talsmaður ríkissaksóknara í Belgiu, segir að vísbendingar séu um að árásin hafi verið hryðjuverk.
Belgíska sjónvarpsstöðin RTBF greindi frá því að árásarmaðurinn hafi verið látinn laus úr fangelsi í gær en hann hafi setið inni fyrir fíkniefnabrot. Ekki er vitað til þess að hann hafi tengst vígasamtökum en einhverjir fjölmiðlar segja að hann hafi öfgavæðst í fangelsinu.
Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, fordæmir árásina sem hann segir verk ofbeldismanns og hugleysinga.
Mikill viðbúnaður og öryggiseftirlit er allt í kringum svæðið þar sem árásin var gerð. Að sögn borgarstjórans í Liège særðist enginn í skólanum, hvorki nemendur né starfsfólk.
„Öll börnin hafa það gott. Þau sem eru á yngsta stigi og leikskóla sáu ekkert. Þau voru flutt á brott og farið með þau á bak við skólann,“ segir Julie Fernandez, móðir sjö ára gamals barns í skólanum. Þar eru þau í umsjón starfsfólks og sálfræðinga. Eins er verið að huga að eldri nemendum en þeim var safnað saman í nærliggjandi garð.