Bergen bakaði Ósló í hitakeppninni

Horft yfir Bergen, sigurvegarann í maíhitaeinvíginu gegn höfuðstaðnum Ósló.
Horft yfir Bergen, sigurvegarann í maíhitaeinvíginu gegn höfuðstaðnum Ósló. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi Noguchi

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur æsispennandi og hnífjöfn rimma norsku borganna Bergen og Ósló um nýtt hitamet verið háð í skandinavísku hitabylgjunni síðustu vikur en Aftenposten og fleiri norskir fjölmiðlar hafa fjallað um einvígi þetta. Opinber hitamet beggja borga fram að þessu fyrir maímánuð stóðu hnífjafnt í 29,8 gráðum en í dag voru nýjar hitatölur skráðar í veðursögubókina.

Þegar hitastig dagsins náði hámarki sínu í dag var ljóst að höfuðborgin mátti bíta í eplið súra með aðeins 0,1 gráðu mun en ný hitamet Bergen og Óslóar fyrir maí mældust 31,1 gráða í Ósló og 31,2 í Bergen. Á síðarnefnda staðnum mældist nýja metið klukkan 13:47, 11:47 að íslenskum tíma. Norska ríkisútvarpið NRK í Hordaland-fylki greindi frá og hélt útvarpsrás þess P1 utan um málið í beinni útsendingu.

Nánar var fjallað um málið í kvöldfréttatíma NRK fyrir tæpri klukkustund og voru fréttamenn í beinni útsendingu staddir á báðum stöðum og ræddu þar við sólþyrsta borgarbúa í miðbæjunum. Oft hefur ódulið sjálfsálit Björgvinjarbúa verið haft í flimtingum í Noregi enda „lýðveldið Bergen“ þekkt hugtak þar á vesturströndinni og hafa þar oftar en ekki sprottið upp hópar sem í fullri alvöru vilja lýsa yfir sjálfstæði frá Noregi en Bergen var ein helsta miðstöð Hansakaupmanna í Noregi á 15. öld og mikið verslunarvígi eins og sést meðal annars af því að árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að versla við aðra en Björgvinjarkaupmenn. Eins náðu íbúar Bergen vart upp í nef sér af bræði þegar nágrannar þeirra í Stavanger hrepptu það hnoss að verða olíuhöfuðborg Noregs við upphaf norska olíuævintýrisins um 1970.

Viðmælandi NRK í Bergen fór ekki í neinar grafgötur með hverjir væru bestir, nefndi einmitt lýðveldið Bergen á nafn því til stuðnings og glotti við tönn eins og Skarphéðinn í brennunni.

Hópur stúlkna sem rætt var við á útiveitingahúsi í Ósló var öllu hógværari og virtust þær ætla að sofa fullkomlega rólegar yfir hitakófi vestlendinga, höfðu reyndar ekki einu sinni heyrt af sigrinum. „Finnst ykkur ekki sérstakt að svona heitt verði í Ósló?“ spurði Emrah Senel, fréttamaður NRK, og svarið lét ekki standa á sér: „Ja, það gerist greinilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert