Leitinni að þotu Malaysia Airlines, MH370, verður haldið áfram ef ný sönnunargögn koma upp á yfirborðið,“ segir forsætisráðherra Malasíu. Leitinni sem kostuð var af einkaaðilum lýkur senn.
Þotan sem var með 239 innanborðs hvarf sporlaust í mars árið 2014. Hún var þá á leið frá Kuala Lumpur til Peking.
Samið var við bandaríska rannsóknarfyrirtækið Ocean Infinity um þriggja mánaða leitaraðgerð og lýkur henni á næstu dögum án þess að nokkrar vísbendingar um örlög vélarinnar hafi fundist.
Áður höfðu yfirvöld í Ástralíu leitt umfangsmikla leit í suðurhluta Indlandshafs. Um var að ræða kostnaðarsömustu aðgerð sem um getur. Henni var hætt í fyrra.
Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, hefur nú gefið í skyn að yfirvöld ætli sér ekki að hefja frekari leit að svo stöddu. „Við erum komin á þann stað að við getum ekki haldið áfram að leita að einhverju sem við getum ekki fundið,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag. „Við skiljum vel tilfinningar ástvina en við getum ekki leitað að eilífu.“
En svo bætti hann við: „Ef við finnum einhverjar nýjar upplýsingar þá getur verið að við höldum leitinni áfram.“
Til stendur að lokaskýrsla hinnar alþjóðlegu leitaraðgerðar, sem Ástralar fóru fyrir, verði gefin út í júlí.
Fyrirtækið Ocean Infinity gerði samkomulag við yfirvöld um að ef eitthvað myndi finnast við leitina, svo sem þotan sjálf eða flugritar hennar, fengi það greitt. Annars ekki. Fyrirtækið leitaði á yfir 112 þúsund ferkílómetra svæði á sjávarbotni.
Norskt rannsóknarskip, Seabed Constructor, var notað við leitina. Kafbátar og drónar voru m.a. notaðir til að kortleggja hafsbotninn.
Brak úr MH370 hefur fundist á þremur stöðum við strendur Indlandshafs.