Öfgavæddist í fangelsi

Maður sem skaut tvær lögreglukonur og ungan karlmann til bana í belgísku borginni Liè­ge öfgavæddist í belgísku fangelsi. Maðurinn, Benjamin Herman, var skotinn til bana af lögreglu.

Árásarmaðurinn er fæddur árið 1982 og er því 36 ára að aldri. Hann hafði setið í fangelsi fyrir rán, líkamsárás og slagsmál auk eiturlyfjasölu. Í myndskeiði sem leikmaður tók af árásinni heyrist byssumaðurinn öskra Allahu Akbar, Guð er mestur, þar sem hann gengur eftir götunni á meðan árásinni stóð. Lögreglan segir að hann hafi umgengist öfgamenn úr hópi íslamista í fangelsi og öfgavæðst.

Hann var síðast í fangelsi í Wallonia-héraði, Marche-en-Famenne, og herma óstaðfestar fréttir að hann hafi verið í stuttu leyfi til þess að sækja um vinnu þegar hann framdi árásina. Herman var á skrá hjá lögreglu fyrir að vera í tengslum við vígamenn í fangelsinu. 

Árásin var gerð um klukkan 10:30 í gærmorgun en Herman elti tvær lögreglukonur í Liè­ge, stakk þær nokkrum sinnum, greip síðan byssur þeirra og skaut þær til bana. Konurnar voru 45 og 53 ára gamlar. Lögreglan segir að um aftöku hafi verið að ræða. 

Herman hélt för sinni áfram fótgangandi og skaut á 22 ára gamlan mann sem sat í farþegasæti bifreiðar á bílastæði. Ungi maðurinn lést. 

Þaðan lá för hans í Leonie de Waha skólann þar sem hann tók starfsmann í gíslinu. Nemendur voru fluttir á brott og særðist enginn þeirra í árásinni.

Árásarmaðurinn skaut á lögreglu þegar hún kom á staðinn og særði nokkra. Hann var síðan skotinn til bana um klukkan 11.

Fjórir lögreglumenn voru fluttir á sjúkrahús með skotáverka. Þar af einn sem var alvarlega særður en hann er ekki lengur í lífshættu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert