Sólarmet slegið í Danmörku

Veðurblíðan hefur leikið við Norðurlandabúa undanfarið.
Veðurblíðan hefur leikið við Norðurlandabúa undanfarið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á meðan regnmet hefur verið slegið í Reykjavík undanfarinn mánuð hefur sannkölluð einmuna blíða verið á Norðurlöndunum. Maí á þessu ári kann þannig að mælast sólríkasti mánuður frá upphafi mælinga í Danmörku. Norskir fjölmiðlar tala um „Afríkuveður“ og og er hitabylgjan sögð þar í landi sögð söguleg. Grillkjöt hefur líka sjaldan selst jafn-vel í norskum stórmörkuðum.

Danska veðurstofan hóf mælingar fyrst árið 1920 og í ár bendir allt til þess að sólarstundirnar í maí verði yfir 350 talsins. „Mitt svartsýnasta mat er að sólarstundirnar í maí verði 349 talsins, en líklegra er að þær verði í kringum 353,“ hefur danska ríkisútvarpið DR eftir veðurfræðingnum Mikael Scharling.

Núverandi met er frá 2008 þegar sólin skein í 347 tíma og var það met einnig sett í maí. Þriðja sætið á þriðji maímánuðurinn, að þessu sinni árið 1947 þegar sólin skein í 330 stundir.

Maí er góður mánuður fyrir sólarstundir,“ útskýrir Scharling. „Við nálgumst lengsta dag ársins og skýjafar er yfirleitt minna á vormánuðum. Það er góð blanda.“

Keppa um að slá hitametið

Norska veðurstofan segir á vef sínum að önnur eins hitabylgja hafi aldrei mælst í landinu og fór nærri því að hitamet væri slegið síðasta sunnudag er hitastigið í Etne suður af Horland mældist 31,4 gráður. 

Bergen og Ósló keppast nú báðar um að slá núverandi hitamet sitt, sem er hnífjafnt. Hæstur hefur hiti mælst í borgunum í maímánuði 29,8 gráður. Veðurfræðingar gera hins vegar ráð fyrir að það kunni að falla í dag og segir norska veðurstofan á Twitter að kapphlaupið um 30 gráðurnar sé nú hafið.

Í Svíþjóð hafa sólarstundirnar einnig verið umtalsvert fleiri en í meðalári og hefur mestur hiti mælst í Boden og Älvsbyn, 29,5 gráður samkvæmt vef sænska ríkisútvarpsins SVT.

Skógareldar loga og lestarteinar bólgna

Hitabylgjunni á Norðurlöndum hefur þó ekki bara fylgt tóm hamingja. Bendir vefur norska ríkisútvarpsins NRK þannig á að 343 skógareldar hafi kviknað í Noregi það sem af er þessum mánuði. Sl. föstudag loguðu eldar frá Finnmörku í norðri til Hokksund í suðri og benda veðurfræðingar þar í landi á að þörf sé á góðri rigningu til að draga úr eldhættunni, smá skúrir við og við dugi ekki þegar gróðurinn sé orðinn þetta þurr.

Sólarveðrið hefur einnig valdið nokkrum töfum á samgöngum, en í frétt á vef Aftenposten er greint frá því að hitinn hafi m.a. valdið því að lestarteinar á leiðinni milli Hellerud og Godlia hafa víkkað út og þörf reynst á að slípa þá til svo lestir komist þar leiðar sinnar án vandkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert