Slökkviliðið í Suður-Rogaland hefur nú uppi allar mögulegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari skógarelda þar í fylkinu í hitabylgjunni sem nú gengur yfir Noreg og Skandinavíu, en skógareldur í Ombo við Boknafjörðinn sem kviknaði á sunnudag logar enn glatt og berjast nú tvær slökkviþyrlur og 50 manna slökkvilið við logana.
„Það yrði okkur þungur róður að fá tilfelli númer tvö af svo umfangsmiklum viðburði eins og staðan er núna,“ segir Nils-Erik Haagenrud slökkviliðsstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hefur slökkviliðið því brugðið á það ráð að banna alla notkun opins elds utandyra í sveitarfélögunum Gjesdal, Klepp, Kvitsøy, Sola, Randaberg, Rennesøy, Sandnes, Stavanger, Time, Finnøy, Hjelmeland, Strand og Forsand.
Bann þetta táknar einfaldlega að hvergi á ofangreindum stöðum má nota grill og nær bannið til garða, svala og sólpalla við heimili fólks. Til að tryggja að ekki verði neinn misbrestur á þessu ganga slökkviliðsmenn á vegum Haagenrud í hús og fylgjast náið með því hvort einhver freistist til að læða steik á grill en sala á grillkjöti í Noregi síðustu vikur hefur verið með slíkum eindæmum að elstu menn muna vart viðlíka.
Slökkviliðið hefur auk þess látið þau boð út ganga að þar á bæ séu menn ekki tilbúnir í símtöl við almenning til að ræða grillbannið eða taka við beiðnum um undantekningar. Slíkt sé einfaldlega ekki í boði.
Í öðrum sveitarfélögum en þeim sem talin eru upp hér að ofan er í gildi vægara allsherjarbann (n. tilnærmet totalforbud) sem felur í sér að fólki er heimilt að grilla í görðum sínum hafi það garðslönguna innan seilingar og sýni ýtrustu varkárni.
Veisluþjónustur hafa ekki farið varhluta af grillbanninu og segir Carl Erik Aadnøy, kokkur og einn eigenda veisluþjónustunnar Matboden, að fyrirtækið hafi neyðst til að gera breytingar á nokkrum verkefnum sem snerust um að sinna grillþjónustu fyrir fólk og fyrirtæki.
Ståle Fjellberg, varaslökkviliðsstjóri í Rogaland, segir bannið muni gilda lengi og mikið regn þurfi að falla áður en því verði aflétt. Fjöldi skógarelda hefur komið upp í Noregi í hitabylgju síðustu vikna sem ekkert lát virðist á og spáir veðurstofan sól og allt að 31 stigs hita um helgina og svipuðu alla næstu viku.
Aðrar fréttir en þær sem vísað hefur verið í: