Reyndi að svíkja út fé vegna Grenfell-brunans

Það sem eftir er af Grenfell-turninum í vesturhluta Lundúna.
Það sem eftir er af Grenfell-turninum í vesturhluta Lundúna. AFP

Karlmaður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í dag fyrir svik, en hann hafði haldið því ranglega fram að faðir hans hefði verið í hópi þeirra sem létust í eldsvoðanum í Grenfell Tower í júní í fyrra.

71 lést í brunanum í Grenfell Tower, sem kviknaði út frá biluðum ísskáp á fjórðu hæð þessa 24 hæða fjölbýlishúss 14. júní í fyrra.

Mohammad Gamoota játaði sekt sína og viðurkenndi að hann hefði fengið 500 pund í reiðufé og andvirði rúmlega 1.250 punda í hótelgistingu og herbergisþjónustu. Þá reyndi hann án árangurs að fá 4.500 pund til viðbótar í fjárhagsaðstoð vegna brunans.

Er hann sagður vera í hópi nokkurra annarra einstaklinga sem reynt hafa að hagnast á eldsvoðanum.

Saksóknarinn Kate Mulholland sagði Gamoota hafa skipulagt svik sín m.a. með því að nota leitarorðinn „Grenfell Tower-svik“ á leitarvélum á netinu. Þar kynnti hann sér m.a. blaðagreinar um eitt fórnarlambanna og notaði síðan nafn þess og persónuupplýsingar til að gera kröfur sínar trúverðugri

Hann var handtekinn í október, en áður hafði hann látið sig hverfa þegar yfirvöld tóku að sýna tortryggni í hans garð.

Mulholland sagði dómstólnum að Gamoota byggi í raun með móður sinni í Croydon, sem er fjarri brunastaðnum.

Í febrúar á þessu árið var Anh Nhu Nguyen, sem hefur fjölda svikadóma á bakinu, dæmdur í 21 mánaðar fangelsi fyrir að halda því ranglega fram að fjölskylda hans hefði farist í brunanum og fara fram á bætur vegna dauða hennar.

Þá voru þau Elaine Douglas og Tommy Brooks fundin sek í síðustu viku um að hafa svikið út andvirði tugþúsunda punda í hótelkostnað og fjárhagsstuðning vegna brunans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert