Leiðtogi AfD harkalega gagnrýndur

Alexander Gauland flytur hér ræðu sína á fundi Junge Alternative …
Alexander Gauland flytur hér ræðu sína á fundi Junge Alternative í Seebach um helgina. AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, gagnrýnir harkalega ummæli leiðtoga þjóðernisflokksins AfD sem líkti nasistatímanum við smáblett af völdum fugladrits í langri sögu landsins. 

Talsmaður Merkel, Steffen Seibert, segir að það sé til skammar að þingmaður á þýska þinginu skuli tjá sig á þennan hátt. Á þann hátt að kanslaraembættið þurfi að tjá sig opinberlega um skammarleg umæli þingmanns. 

Ríkisstjórnin sem ein heild fordæmir allar tilraunir til þess að draga úr glæpum nasista, segir Seibert. Hann bætir við að glæpir sem framir voru undir stjórn Hitlers og helförin séu ekkert annað er glæpir gegn mannkyninu. 

Hann segir að eina ástæðan fyrir því að Þýskalandi tókst að verða fært um að vera hluti af heild annarra ríkja hafi verið sú að þjóðin sem heild gerði sér grein fyrir ábyrgðinni sem hún ber á þjáningum annarra. 

 Alexander Gauland, annar af leiðtogum AfD, sagði á fundi með ungum flokksfélögum að það væri margt annað merkilegra í sögu landsins heldur en einhver 12 ár sem nasistar voru  við völd. „Hitler og Nasistaflokkurinn er aðeins smáblettur eftir fugladrit í yfir eitt þúsund ára farsælli sögu Þýskalands. 

Gríðarleg reiði greip um sig meðal margra Þjóðverja vegna ummælanna, þar á meðal hjá forseta landsins, Frank-Walter Steinmeier, sem sakaði Gauland um að gera lítið úr kvölum fórnarlambanna og að reyna að sá nýju fræi haturs í huga ung fólks. „Við verðum að standa öll saman gegn þessu,“ sagði Steinmeier.

Merkel segir að öll ríkisstjórn Þýskalands standi saman að fordæmingu á orðum Gauland sem og meirihluti þýsku þjóðarinnar. 

Stjórnmálaflokkurinn AfD var stofnaður árið 2013 en hans helstu baráttumál eru að berjast á móti íslam-trú og innflytjendum. Hann er stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins. Flokkurinn fékk tæplega 13% atkvæða í þingkosningum í fyrra og komst þar með í fyrsta skipti á þing. 

Gauland hefur ítrekað vakið umtal með ræðum sínum þar sem hann ræðst yfirleitt harkalega á íslam og innflytjendur. Hann hefur einnig sagt að Þjóðverjar eigi að vera stoltir af hermönnum landsins í fyrri- og seinni heimstyrjöldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert