Rakhamat Akilov var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir hryðjuverk í Stokkhólmi í apríl á síðasta ári. Akilov myrti fimm manns með því að aka flutningabíl niður fjölfarna göngugötu, en einnig voru tugir manna sem særðust í árásinni.
Akilov var ákærður fyrir hryðjuverk og tilraun til hryðjuverks, en þegar hann hafði ekið bíl sínum á vegfarendur reyndi hann, án árangurs, að kveikja á sprengjubelti sem hann bar á sér. Saksóknari fór fram á lífstíðarfangelsi yfir honum og brottvikningu.
Akilov játaði hryðjuverkin á fyrsta degi aðalmeðferðar málsins, og sagði markmið sitt hafa verið að „myrða sænska borgara". Hann var einnig fundinn sekur um að hafa „valdið sænsku þjóðinni alvarlegum skaða“ með verknaðinum.