Ákærður fyrir sjö manndrápstilraunir

Lögregla í Grønland-hverfinu í Ósló sem þekkt er að vígsökum. …
Lögregla í Grønland-hverfinu í Ósló sem þekkt er að vígsökum. Myndin er úr safni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mikil skelfing greip um sig á skemmtistaðnum Blå í Ósló aðfaranótt 9. júlí í fyrra þegar 25 ára gamall maður dró upp skammbyssu fyrir utan staðinn, eftir að dyraverðir höfðu vísað honum frá, og skaut á allt sem fyrir varð. 

Fjórir gestir staðarins hlutu skotsár og þótti mesta mildi að enginn lét lífið en auk fjórmenninganna skaut árásarmaðurinn að þremur öðrum sem sluppu með skrekkinn. Greint var frá árásinni hér á mbl.is.

Árásarmaðurinn, sem var undir áhrifum áfengis og fíkniefna og hefur meint tengsl við samfélag norskra nýnasista, var handtekinn og hefur honum nú verið birt ákæra þar sem honum er gefið að sök að hafa gert sjö tilraunir til manndráps. Norska dagblaðið VG greinir frá þessu í gær og í dag og hefur það eftir ákæruvaldinu að maðurinn sé talinn svo óútreiknanlegur og hættulegur að líklega verði farið fram á dómsúrræðið varðveislu (n. forvaring) yfir honum sem er það sama og Anders Behring Breivik hlaut og felur í sér að hægt er að framlengja fangelsisvist hans án nýrrar ákæru telji héraðsdómari það verjandi að sérfræðinga yfirsýn.

Veittist að manni sem dæmdur var í þreföldu manndrápsmáli

Auk skotárásarinnar er manninum gefið í sök að hafa í maí í fyrra, tveimur mánuðum fyrir skotárásina á Blå, veist að nafngreindum manni, Per Orderud, heima hjá þeim síðarnefnda og meðal annars rispað andlit vinar hans með hnífsblaði, en Orderud þessi hlaut árið 2002 dóm fyrir aðild að þreföldu manndrápi sem átti sér stað á heimili hans um hvítasunnuhelgina 1999 þegar hann var talinn hafa átt þátt í því að myrða báða foreldra sína og systur í dómsmáli sem fyllti norsku þjóðina óhug á sínum tíma. Áttu atburðirnir sér stað á bóndabænum Orderud gård.

Sá sem nú er ákærður á sér einnig sögu um að hafa stungið annan mann við Blitz-húsið, þekkt athvarf pönkara í Ósló, skallað lögregluþjón og hótað fangavörðum sínum lífláti í mars 2016 þegar hann afplánaði dóm í Telemark-fangelsinu í Skien og fangavörður bað hann vinsamlegast um að hafa sig inn í fangelsið af útivistarsvæðinu. Því svaraði fanginn: „Heigulstíkin þín, þú veist ekki hver ég er. Ég skal finna þig þegar ég slepp út eftir þrjá mánuði. Sjáum hver bógur þú ert þegar ég mæti þér einum á velli. Ég herja á þig eða fjölskyldu þína [...] Hvernig verður þér innanbrjósts er kúlurnar fljúga yfir höfði þér[?]“ (n. Din feige bikkje, jeg skal drepe deg. Du vet ikke hvem jeg er, jeg skal oppsøke deg når jeg kommer ut om 3 måneder. Skal se hvor tøff du er når jeg møter deg alene. Jeg skal ta deg eller din familie. [...] Hvordan føles det når kulene flyr over hodet ditt[?]). Þessar hótanir hafði hinn ákærði uppi í fangelsi rúmu ári fyrir skotárásina á Blå og sýndist sitt hverjum um að hann fengi að fara frjáls ferða sinna á ný.

Sárnaði að vera ekki hleypt inn á Blå

„Honum sárnaði að vera ekki hleypt inn á staðinn [Blå],“ segir Stian Mæland, verjandi árásarmannsins, í samtali við VG en dagblaðið Aftenposten hefur einnig greint frá því að annar verjandi, fyrr í málinu, hafi sagt frá því að maðurinn hafi gengið um vopnaður í marga mánuði fyrir árásina af ótta við að á hann yrði ráðist, en VG hefur eftir Mæland að skjólstæðingur hans segi að óþekktir menn hafi nokkrum mánuðum áður veist að honum með ýmis vopn og verjur, þar á meðal byssusting og hafnaboltakylfu. Mun hann hafa kært það mál til lögreglu en það að lokum verið fellt niður þar sem aldrei tókst að leiða líkum að því hverjir meintir árásarmenn hefðu verið.

Árásarmaðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann gerði atlögu sína aðfaranótt 9. júlí í fyrra. Hefur hann, meðan á vistinni hefur staðið, sætt nokkrum geðrannsóknum og geðmati sérfræðinga sem, að sögn ákæruvaldsins, eru allir sammála um eitt: Að hann sé fær um að ráðast til atlögu á ný hvenær sem er. Að sögn saksóknara er tekið tillit til þessa í ákærunni sem honum hefur nú verið birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert