Anthony Bourdain látinn

Anthony Bourdain ásamt leikkonunni Asia Argento í apríl síðastliðnum.
Anthony Bourdain ásamt leikkonunni Asia Argento í apríl síðastliðnum. AFP

Kokkurinn heimsfrægi og matargagnrýnandinn Anthony Bourdain er látinn, 61 árs gamall.

CNN greinir frá þessu.

Bourdain er sagður hafa framið sjálfsvíg.

„Með ótrúlegri sorg í hjarta staðfestum við að vinur okkar og samstarfsmaður, Anthony Bourdain, er látinn,“ sagði í yfirlýsingu frá CNN.

„Ást hans á ævintýramennsku, nýjum vinum, góðum mat og drykk og mögnuðum sögum gerði það að verkum að hann var einstakur sögumaður. Hæfileikar hans komu okkur sífellt í opna skjöldu og við munum sakna hans afar mikið. Hugur okkar og bænir eru hjá dóttur hans og fjölskyldu á þessum erfiðu tímum.“  

Kokkurinn var staddur í Frakklandi þegar hann lést. Þar var hann að vinna að nýjum þætti fyrir kokkaþætti sína Parts Unknown á CNN sem hafa unnið til verðlauna. Ellefta þáttaröðin var frumsýnd í síðasta mánuði. 

Vinur Bourdain, Eric Ripert, fann hann látinn á hótelherbergi sínu í morgun.

Þegar Bourdain tók á móti Peabody-verðlaununum árið 2013 lýsti hann starfi sínu við sjónvarpsþætti sína.

„Við spyrjum mjög einfaldra spurninga: Hvað gerir þig hamingjusaman? Hvað borðar þú? Hvað finnst þér gaman að elda? Alls staðar í heiminum spyrjum við fólk þessara einföldu spurninga og svörin sem við fáum eru oft alveg mögnuð,“ sagði hann.

Árið 1999 skrifaði Bourdain grein í tímaritið New Yorker undir fyrirsögninni „Ekki borða fyrr en þú lest þetta“. Í framhaldinu skrifaði hann bókina Kitchen Confidential: Adventures in the Culinary Underbelly sem sló í gegn og kom honum á kortið víða um heim.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert