Ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að draga samþykki sitt fyrir sameiginlegri yfirlýsingu G7-ríkjanna til baka var „frekar niðurdrepandi“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.
„Þetta er erfitt og er niðurdrepandi núna en þetta er enginn endapunktur samstarfsins,“ sagði Merkel við þýsku ríkissjónvarpsstöðina ARD.
Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna kröfðust þau þess að Rússar myndu hætta að grafa undan lýðræði. Þá studdu ríkin ásakanir Breta gegn Rússum vegna eitrunar á fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal.
Trump sakaði forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, um óheiðarleika. Með því svaraði hann Trudeau sem sagði að Kanadabúar myndu ekki láta ráðskast með sig.
Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Mass, sagði að Trump hefði náð að eyðileggja traust og gott samband Evrópu og Bandaríkjanna með framferði sínu um helgina á fundinum. Evrópa þyrfti nú að standa saman.