Deilan um Aquarius magnast

629 flóttamenn og hælisleitendur eru nú um borð í Aquarius …
629 flóttamenn og hælisleitendur eru nú um borð í Aquarius á leið til Spánar. AFP

Björgunarskipið Aquarius hefur bjargað lífi tæplega 30.000 hælisleitenda og flóttamanna á tveggja ára veru sinni á Miðjarðarhafinu. Nú stefnir hins vegar í átök við stjórnvöld í Evrópu.

Aquarius, eða öllu heldur þeir 629 flóttamenn og hælisleitendur sem nú eru þar um borð, rötuðu í fjölmiðla um helgina er stjórnvöld á Ítalíu og Möltu neituðu skipinu um að hafnarleyfi og hafa fyrir vikið verið harðlega gagnrýnd af stjórnvöldum annarra ESB ríkja, sem þó hafa ekki rokið til og boðið skipið velkomið í sínar hafnir.

Aquarius getur rúmað 500 manns, en tekur þó oft mun fleiri farþega á siglingu sinni um Miðjarðarhaf þar sem það bjargar hælisleitendum á ótraustum sjóförum sem koma frá Afríku með fólk í leit að betra lífi í Evrópu. Fleiri samtök halda úti sambærilegri starfsem á Miðjarðarhafinu, en Aquarius er stærst björgunarskipanna.

Stuðningsmenn kalla Aquarius gjarnan „sjúkrabíl hafsins“, enda hefur skipið miklum fjölda hælisleitenda frá drukknun. Gagnrýnendur segja aðgerðirnar hins vegar hvetja fleiri til að leggja í hættuförina yfir Miðjarðarhafið.

Hælisleitendur á báti á leið um borð í Aquarius, sem …
Hælisleitendur á báti á leið um borð í Aquarius, sem er stærst þeirra skipa sem stunda björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. AFP

Markmiðið er að bjarga fólki í sjávarháska

Það voru frönsku góðgerðarsamtökin SOS Mediterranee sendu Aquarius á flot snemma árs 2016, en það ár reyndi rúm milljón manna að flýja stríð og fátækt í Afríku með því að komast sjóleiðina til Evrópu.

Frá þeim tíma hafa evrópskir ráðamenn litið á starf Aquarius af tómlæti þegar best lætur og af hreinni og beinni andúð er verst er.

Það sauð svo upp úr nú um helgina þegar ný ríkisstjórn Ítalíu og nágrannaríkisins Möltu, neituðu að veita skipinu hafnarleyfi. Það er nú á leið til Spánar eftir að spænsk stjórn­völd heim­iluðu skip­inu að koma í höfn í Valens­íu með aðstoð tveggja ít­alskra skipa. Sjö ólétt­ar kon­ur eru um borð, ell­efu ung börn og 123 ein­stak­ling­ar und­ir lögaldri sem eru ein­ir á ferð. Þá eru 15 þeirra sem um borð eru sagðir vera með al­var­leg bruna­sár og nokkr­ir þjást af of­kæl­ingu.

SOS Mediterranee kveðst ætla að halda björgunarstarfi sínu áfram og því má telja nokkuð öruggt að fleiri sambærileg deilumál muni koma upp á næstunni. Ekki hvað síst yfir sumarmánuði þegar fleiri freista þess að komast sjóleiðina frá Líbýu.

„Okkar markmið er að bjarga fólki í sjávarháska,“ segir Sophie Beau framkvæmdastjóri SOS Mediterranee  í samtali við AFP. „Og á meðan að það er fólk þarna úti að drukkna þá munu góðgerðarsamtökin vinna að því að bjarga því.“

Aquarius getur rúmað 500 manns, en tekur þó oft mun …
Aquarius getur rúmað 500 manns, en tekur þó oft mun fleiri farþega á siglingu sinni um Miðjarðarhaf AFP

Björgunaraðgerðirnar sífellt flóknari

SOS Mediterranee samtökin eru staðsett í frönsku hafnarborginni Marseille, en reiða sig á fjárgjafir fyrir um 90% af þeim 11.000 evrum sem það kostar daglega að reka skipið. Líkt og önnur góðgerðarsamtök sem halda úti björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi, þá kvarta liðsmenn SOS Mediterranee yfir að starf þeirra verði sífellt erfiðara. Ekki hvað síst eftir að líbýska strandgæslan tók, í kjölfar þjálfunar ESB ríkja, að hrekja þau lengra frá ströndum sínum.

Björgunaraðgerðirnar verða sífellt flóknari og tímafrekari, með sífellt meiri óreiðu,“ segir samhæfingarstjóri björgunaraðgerða Nick Romaniuk. „Mikil spenna er í öllum samskiptum við Líbýumenn.“

OS Mediterranee samtökin reiða sig á fjárgjafir fyrir um 90% …
OS Mediterranee samtökin reiða sig á fjárgjafir fyrir um 90% af þeim 11.000 evrum sem það kostar daglega að reka skipið. AFP

Halda í hugsjónir stofnandans

Vandinn sem ný stjórn Ítalíu virðist skapa er þó enn meira aðkallandi, en SOS Mediteranee hefur frá upphafi sett farþegana af skipi sínu við strendur Ítalíu og bætt þannig við hóp þeirra 700.000 hælisleitenda sem hafa komið til Ítalíu frá 2013.

Skilaboðin frá nýjum innanríkisráðherra landsins eru hins vegar alveg skýr. „Það er skylda að bjarga líf­um, en það er ekki skylda að breyta Ítal­íu í risa­vaxn­ar flótta­manna­búðir,“ sagði Sal­vini á Twitter á sunnudag.

Þrátt fyrir vaxandi erfiðleika í starfi, segja forsvarsmenn SOS Mediteranee að þeir muni áfram gera allt sem á þeirra valdi er til að standa við loforð sitt um að bjarga fólki, líkt og hugsjón stofnandans þýska sjómannsins  Klaus Vogel segir til um.

SOS Mediteranee var stofnað árið 2015 af teymum frá Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Í dag eru björgunarsveitarmennirnir 140 og koma frá 18 löndum.

Þegar siglingarnar hófust í upphafi var þeim ætlað að mæta því bili sem varð til er ítalska strandgæslan hætti Mare Nostrum björgunaraðgerðum sínum á hafi úti.

Gagnrýnendur ásaka hins vegar samtökin í sívaxandi mæli um að hvetja hælisleitendur til sjóferðanna, ekki hvað síst þá sem haldi yfir hafið frá Líbýu, enda viti þeir góðar líkur séu á að þeim verði bjargað.

Francis Vallat, formaður SOS Mediteranee, segir þann kost að láta …
Francis Vallat, formaður SOS Mediteranee, segir þann kost að láta fólk deyja á hafi úti vera ómannúðlegan. „Þetta fólk er að flýja helvíti,“ sagði Vallat. AFP

„Vitorðsmenn smyglara“

Marine Le Pen, leiðtogi franska þjóðernisflokksins Front National, sagði í dag góðgerðarsamtökin vera „vitorðsmenn smyglara“ sem græði milljónir dollara á því að fylla báta af hælisleitendum á leið til Evrópu.

Francis Vallat, formaður SOS Mediteranee, segir þann kost að láta fólk deyja á hafi úti hins vegar vera ómannúðlegan. „Þetta fólk er ekki að leita að El Dorado [innsk. goðsagnakennt ríki] það er að flýja helvíti,“ sagði Vallat.

Samtökin virði reglur stjórnvalda upp að vissu marki. „Við virðum yfirvöld þangað til einhver biður okkur um að fara aftur með hælisleitendur til þess vítis sem Líbýa er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert