Reiði og sorg ríki vegna Grenfell brunans

Reistur hefur verið veggur til minningar um þá 71 íbúa …
Reistur hefur verið veggur til minningar um þá 71 íbúa sem létust í brunanum. AFP

Reiði og óþolinmæði fyrir réttlæti í bland við einskæra sorg eru þær tilfinningar sem sækja á íbúa Bretlands þegar þeir minnast brunans sem varð í Grenfell turni fyrir réttu ári síðan, aðfararnótt  14. júní 2017. Bruninn er sá mannskæðasti í landinu frá seinni heimsstyrjöld.

Margir íbúar hverfisins í Vestur-London, þar sem bruninn varð og 71 týndu lífi, hafa kvaðst svekktir gagnvart stjórnmálamönnum og slökkviliðsmönnum í aðdraganda minningarathafnar sem blásið verður til á morgun.

Vilja handtökur í framhaldi af rannsókn

„Ég skil ekki hvers vegna við sem land erum ekki með háreysti. Hvers vegna við segjum ríkisstjórninni ekki afdráttarlaust að breytinga sé þörf,“ segir Tasha Brade, íbúi hverfisins og baráttukona hópsins „Réttlæti fyrir Grenfell“ (e. Justice4Grenfell), stuðningshóps fyrir þá sem lifðu af brunann.

Meðlimir hópsins hafa talað fyrir því að handtökur fari fram í framhaldi af rannsókn sem hefur staðið yfir vegna brunans, auk þess banns sem lagt var á klæðningar sem juku útbreiðslu eldsins.

Þau hafa jafnframt gagnrýnt fyrirmæli slökkviliðsins til þeirra sem lentu í brunanum um að halda kyrru fyrir í íbúðaturninum í tvær klukkustundir eftir upptök eldsins. Þá hafi gengið hægt að finna íbúum annað húsnæði sem hafi aukið á reiðina, en 43 íbúar af þeim 203 sem misstu húsnæði sitt búa enn á hóteli.

Grenfell-turninn.
Grenfell-turninn. AFP

Þeir sem lifðu af þjáist af áfallastreituröskun

„Fólk sem veiktist í kjölfarið hefur ekki fengið viðeigandi heilsu- og velferðarþjónustu,“ segir Vassiliki Stavrou-Lorraine, sem hefur búið til móts við turninn í 34 ár. Hún bætir við: „Því miður lifum við við þessar aðstæður, nú ári síðar“ og segir hún að fólk þjáist af þunglyndi og áfallastreituröskun.

Aðstandendur hinna látnu lögðu nýverið fram vitnisburð á hjartnæman hátt um síðustu andartök ástvina sinna. Vitnisburðurinn var lagður fram í upphafi opinberrar úttektar sem gerð var vegna brunans, sem var til þess fallin að minna Breta á hræðilegt umfang harmleiksins.

Eldurinn, sem átti upptök sín í eldhúsi á fjórðu hæð íbúðahússins, breiddist hratt um allar 24 hæðir byggingarinnar. Líkt og fyrr segir týndu 71 lífi sínu í brunanum auk þess sem kona í byggingunni átti síðar andvana barn og voru orsakir þess raktar til brunans.

Klæðningin stóðst ekki reglur

Húsið, sem byggt var úr steinsteypu árið 1974, hafði verið endurnýjað árin 2014 og 2016 og þá sett ný klæðning í húsið. Efnið í klæðningunni hafði ekki verið eldvarnarprófað og stóðst ekki byggingaröryggisreglur, samkvæmt mati sérfræðings sem kvaddur var til við rannsóknina.

Slökkvilið London sagði íbúum að halda kyrru fyrir í íbúðum sínum í næstum tvær klukkustundir þrátt fyrir að að eldurinn hafi náð um alla bygginguna á innan við hálfri klukkustund. Þau fyrirmæli hafa verið harðlega gagnrýnd af aðstandendum hinna látnu.

Skildir eftir til þess að deyja

„Staðreyndin er sú að aðstandenda okkar er minnst núna vegna þess að þeir voru skildir eftir til þess að deyja,“ segir Karim Mussilhy, sem missti frænda sinn sem bjó á efstu hæð íbúðaturnsins, í brunanum.

Kerry O‘Hara, sem lifði af brunann, sagði í samtali við AFP: „Ég er glöð að ég fylgdi ekki fyrirmælunum og þori ekki að ímynda mér hvað hefði gerst ef ég hefði haldið kyrru fyrir“.

Íbúar á svæðinu hafa nú tekið sig saman og hjálpað við opnun viðkomustöðvar, sem býður m.a. upp á  heilsu- og íbúðaráðgjöf auk matar og drykkjar. Margar minningarathafnir verða í Vestur-London í vikunni og mun íbúahópurinn loka götu í hverfinu og halda þar minningarvöku á miðvikudagskvöld.

Hluti þeirra íbúa sem létust í brunanum.
Hluti þeirra íbúa sem létust í brunanum. AFP

Yfirvöld sætt harðri gagnrýni

Borgarráð Kengsington og Chelsea, þar sem Grenfellturn er staðsettur, hafa verið í kastljósinu vegna viðbragða sinna í aðdraganda og í kjölfar brunans. Íbúarnir færa rök fyrir því að þessar vel stæðu borgir hafi vanrækt efnaminni hverfin við og umhverfis Grenfell íbúðaturninn. Þeir saka yfirvöld einnig um að hafa skorið niður kostnað í uppbyggingu hverfisins.

Talsmaður borgarráðsins segir það hafa varið 235 milljónum sterlingspunda í að tryggja að íbúarnir hafi ný heimili til að velja úr um.  Eins hefur forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, sætt gagnrýni, m.a. fyrir hik ríkisstjórnarinnar við að banna klæðninguna eftir að útgefin skýrsla leiddi í ljós að aðeins rétt klæðning hefði ekki ein getað komið í veg fyrir að slíkur harmleikur endurtæki sig.  

Á mánudag baðst May formlega afsökunar fyrir að hafa aðeins hitt meðlimi bráðaþjónustunnar en ekki íbúa hússins þegar hún heimsótti íbúðaturninn í júní í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka