Aðildarríki Evrópusambandsins standa einhuga að baki áformum framkvæmdastjórnar sambandsins um að leggja á innflutningstolla á vörur sem framleiddar eru í Bandaríkjunum, þetta staðfestir heimildarmaður AFP.
Þetta er í takt við fyrri yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinnar um að hún hafi stuðning allra aðildarríkja fyrir „jöfnunartollum“ sem ætlað er að vera svar við aðgerðum bandarískra yfirvalda. Hingað til hefur verið talið líklegt að tollar Evrópusambandsins taki gildi í júlí.
Einhverjar áhyggjur hafa verið vegna stöðu íslensks áliðnaðar vegna þeirra viðskiptadeilna sem nú geisa. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu er verið að leita leiða til þess að undanskilja EFTA/EES-ríkin frá tollum sem Evrópusambandið hyggst beita til þess að svara aðgerðum Bandaríkjanna.