Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að bandarísk stjórnvöld hætti að aðskilja börn frá foreldrum sínum sem koma með ólögmætum hætti til landsins frá Mexíkó.
Talsmaður forsetafrúarinnar segir að hún telji að Bandaríkin eigi að vera þjóð sem framfylgir öllum lögum „en einnig þjóð sem stjórnar af hjartagæsku“.
Eiginmaður hennar, Donald Trump Bandaríkjaforseti, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir núllstefnu sína í þessum málum. Fram kemur á vef BBC, að á sex vikna tímabili hafi tæplega 2.000 fjölskyldur verið aðskildar með þessum hætti.
Yfirvöld handtaka einstaklinga sem reyna að komast yfir landamærin og þeir settir í varðhald. Margir sem fara yfir landamærin hyggjast sækjast eftir hæli í Bandaríkjunum. Þeir sem eru teknir höndum eiga yfir höfði sér að verða ákærðir fyrir að koma inn í landið með ólöglegum hætti.
Vegna þessa eru mörg hundruð börn nú í umsjá yfirvald og þeim haldið frá foreldrum sínum. Mannréttindahópar gagnrýna þetta harðlega og segja að þetta séu fordæmalausar aðgerðir af hálfu bandarískra yfirvalda.
Melania Trump segist miður sín yfir að sjá börn aðskilin frá foreldrum sínum. Hún vonar að það nái þverpólitísk sátt á Bandaríkjaþingi um að hægt verði að koma í gegn nauðsynlegum breytingum á innflytjendalöggjöfinni.
Donald Trump segir að stefnan byggi á löggjöf sem demókratar beri ábyrgð á. Forsetinn hefur hins vegar ekki upplýst til hvaða löggjafar hann er að vísa.
Í færslu sem hann birti á Twitter í gær, hvatt hann demókrata til að vinna með repúblikönum að því að setja saman ný lög.