Segir nauðsynlegt að aðskilja fjölskyldur

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir nauðsynlegt að binda endi á „landamærakrísuna“ …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir nauðsynlegt að binda endi á „landamærakrísuna“ með því að veita landamæravörðum bjargir til að fjarlægja ólöglega innflytjendur, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fjölskyldur. AFP

„Ég vil ekki taka börn af foreldrum sínum. Þegar þú sækir foreldra til saka fyrir að koma ólöglega til landsins, sem á að gera, þá verður þú að taka börnin af þeim.“ Með þessum orðum ver Donald Trump Bandaríkjaforseti afar umdeilda stefnu sína í innflytjendamálum.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarískum yfirvöldum hafa 2.342 börn verið aðskilin frá foreldrum sínum frá því í byrjun maí á landa­mær­um Bandaríkjanna og komið fyr­ir í sér­stök­um búðum/​mót­tökumiðstöðvum á veg­um stjórn­valda og þaðan eru þau send til ætt­ingja eða í fóst­ur. Þessar aðgerðir koma í kjölfar hertra aðgerða í innflytjendamálum þar sem tilkynnt var að fólki sem reyndi að kom­ast til Banda­ríkj­anna með ólög­mæt­um hætti yrði ekki sýnt neitt umb­urðarlyndi en marg­ir þeirra ætla sér að sækja um hæli í Banda­ríkj­un­um. Fólk er fang­elsað og á yfir höfði sér sak­sókn.

Stefna ríkisstjórnar Trumps hefur verið harðlega gagnrýnd og þá sérstaklega sú staðreynd að börn séu aðskilin frá foreldrum sínum. Meðal þeirra sem hafa stigið fram eru allar núlifandi forsetafrúr Bandaríkjanna, þar á meðal Melania Trump og krefjast þær allar að hætt verði að stía fjölskyldum í sundur.

Trump tók til máls á fundi með samtökum sjálfstæðra fyrirtækja í dag þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri að binda endi á „landamærakrísuna“ með því að veita landamæravörðum bjargir til að fjarlægja ólöglega innflytjendur, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fjölskyldur.

Þá hefur Trump sagt að vandinn liggi hjá Demókrataflokknum þar sem flokkurinn hafi komið í veg fyrir að löggjöf um málefni ólöglegra innflytjenda verði samþykkt á Bandaríkjaþingi. Demókratar hafa vísað ásökunum Trumps á bug og segja hann nota saklaus börn sem peð í pólitískri refskák.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert