Neysla og ræktun á kannabis verður lögleg í Kanada frá 17. október næstkomandi. Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, greindi frá þessu í dag en öldungadeild kanadíska þingsins samþykkti í gær lög sem heimila neyslu kannabis. 52 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en 29 gegn. Tveir sátu hjá. Fulltrúadeild þingsins hafði áður samþykkt frumvarpið.
Kanada er annað landið í heiminum sem lögleiðir neyslu kannabis í öðrum en læknisfræðilegum tilgangi og fyrsta G7 ríkið. Úrúgvæ lögleiddi neyslu kannabils árið 2013 og þá hafa níu ríki í Bandaríkjunum gert það.
Ginette Petitpas Taylor, heilbrigðisráðherra Kanada, er mjög stolt af lögleiðingunni. „Þessi sögulega löggjöf mun binda enda á bannlög og í stað þeirra verður til skynsamleg, ábyrg og réttsýn kannabisstefna,“ segir í Twitter-færslu ráðherrans.
Cannabis will be legal in Canada beginning on October 17, 2018.
— Ginette Petitpas Taylor (@GPTaylorMRD) June 20, 2018
I’m so proud of the Cannabis Act – this historic legislation will end prohibition and replace it with a sensible, responsible and equitable cannabis policy.