Skipuleggjendur göngunnar „Unite the Right" í Charlottesville í fyrra hafa fengið heimild til þess að standa fyrir göngu í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC.
Umsókn Jason Kessler um að fá að halda göngu fyrir borgararéttindum hvítra, „white civil rights rally“ hefur verið samþykkt og verður gangan haldin helgina 11.-12. ágúst.
Samkvæmt umsókn Kessler má búast við því að um 400 manns taki þátt í göngunni. Atburðurinn í Washington DC er skipulagður þegar ár er liðið frá sambærilegri samkomu í Charlottesville, Virginíu.
Hópur fólks kom til að mótmæla boðskap kynþáttahataranna í Charlottesville í fyrra. Í fyrstu kom til orðahnippinga. Svo var farið að stugga við fólki. Að lokum brutust út átök. Þegar allt var á suðupunkti bakkaði einn úr hópi kynþáttahataranna, James Alex Fields, bíl sínum inn í mannfjöldann og á mótmælendurna með þeim afleiðingum að 19 slösuðust og ein kona, Heather Heyer að nafni, lést.
Óskað var eftir heimild til þess að halda sambærilega göngu í Charlottesville í ár en þeirri beiðni var hafnað á grundvelli almannaöryggis.