Fimm konum sem starfa fyrir hjálparsamtök á afskekktum stað í austurhluta Indlands var rænt og þeim nauðgað af hópi karla á þriðjudag. Lögreglan greindi frá þessu í dag.
Konurnar eru í samtökum sem starfa með flóttafólki og berjast gegn mansali. Þær voru staddar í þorpi í Khunti í Jharkhand-ríki þegar þeim var rænt og þeim nauðgað. Ofbeldið var tekið upp á myndband og konunum hótað lífláti ef þær tilkynntu það til lögreglu.
Að sögn lögreglustjórans, Rajesh Prasad, starfa konurnar með Asha Kiran-hjálparsamtökunum sem eru kristniboðssamtök á svæðinu.
Lögreglan hefur yfirheyrt nokkra í tengslum við árásina, þar á meðal nokkra úr tveimur óskyldum hópum, annars vegar stjórnleysingja og hins vegar maóista.
Kynferðislegt ofbeldi er mjög algengt á Indlandi og ekki síst í Jharkhand. Þar var þremur unglingsstúlkum nauðgað í síðasta mánuði og þær brenndar lifandi.