Reglugerð um sérstaka verndartolla á bandarískar vörur sem fluttar eru inn til ríkja Evrópusambandsins tók gildi í dag. Tollarnir eru lagðir á vöruflokka að andvirði 2,8 milljarða evra. Um er að ræða svar ESB við ákvörðun bandarískra yfirvalda um að leggja sérstaka tolla á ákveðnar vörur frá Evrópu sem og víðar til varnar innlendri framleiðslu.
ESB leggur meðal annars tolla á innflutning á vörur eins og vélhjól, appelsínusafa og bourbon-viskí, segir í frétt BBC.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, segir að tollarnir sem bandarísk yfirvöld leggja á ESB gangi gegn öllum rökum og sögunni.
Indversk stjórnvöld hafa ákveðið að hækka skatta á 29 vörur sem fluttar eru inn frá Bandaríkjunum. Þar á meðal landbúnaðarvörur, stál- og járnvörur. Nýju reglurnar taka gildi 4. ágúst en þær ná meðal annars til innflutnings á möndlum, hnetum og kjúklingabaunum frá Bandaríkjunum. Indverjar eru stærstu kaupendur á bandarískum möndlum í heiminum og ljóst að skattarnir munu hafa umtalsverð áhrif á afkomu bandarískra bænda.