Enn ein tilraun gerð til friðar

Frá vinstri: Riek Machar, Yoweri Museveni forseti Úganda, Omar al-Bashir …
Frá vinstri: Riek Machar, Yoweri Museveni forseti Úganda, Omar al-Bashir forseti Súdans og Salva Kiir forseti Suður-Súdans við undirskrift friðarsamkomulagsins. AFP

 Salva Kiir, forseti Suður-Súdans og erkifjandi hans, Riek Machar, samþykktu í dag „varanlegt“ vopnahlé sem á að taka gildi innan þriggja sólarhringa. Vonast er til að þetta friðarsamkomulag bindi enda á margra ára blóðuga borgarastyrjöld í landinu.

„Allir aðilar hafa samþykkt varanlegt vopnahlé innan þriggja sólarhringa,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðherra Suður-Súdans í dag. Samkomulagið var undirritað í kjölfar funda milli leiðtoga stríðandi fylkinga í Khartoum, höfuðborg nágrannaríkisins Súdans. 

Kiir og Machar undirrituðu samkomulagið í viðurvist Omars al-Bashir, forseta Súdans.

Þetta er enn ein tilraunin til að koma á friði í Suður-Súdan og í þetta sinn voru það leiðtogar Austur-Afríkubandalagsins sem undirbjuggu samkomulagið. Sameinuðu þjóðirnar höfðu hótað að mælast til þess að viðskiptaþvingunum yrði beitt og sáu leiðtogarnir því ekki annað í stöðunni en að bregðast við með þessum hætti. 

Oftsinnis hefur verið reynt að koma á friði með sambærilegum hætti á undanförnum misserum en vopnahlé hafa oftast verið rofin innan fárra klukkustunda eða daga. 

Tugþúsundir hafa fallið í stríðinu í Suður-Súdan. Um fjórar milljónir hafa lagt á flótta. Það braust út í desember árið 2013 er Kiir ásakaði Machar, sem þá var varaforseti, um að vera að skipuleggja valdarán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert