Höfða mál gegn stjórn Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær. AFP

Sautján ríki Bandaríkjanna hafa höfðað mál gegn ríkisstjórn Donalds Trump vegna „grimmlegs og ólöglegs“ aðskilnaðar flóttafjölskyldna. Meðal ríkjanna eru Washington, New York og Kalifornía.

Andmæla ríkin þeirri stefnu að neita hælisleitendum við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó að koma inn í landið.

Þá hefur dómari í Kaliforníu komist að þeirri niðurstöðu að sameina beri allar fjölskyldur óskráðra innflytjenda, sem sundrað hefur verið við landamærin, innan næstu þrjátíu daga. Samkvæmt ákvörðun dómarans skulu börn yngri en fimm ára vera sameinuð foreldrum sínum innan fjórtán daga.

Meðal dómsskjala voru meðal annars vitnisburðir margra foreldrar sem höfðu hvorki getað fundið né haft samband við börnin sín eftir að landamæraverðir aðskildu þau.

Í málshöfðun ríkjanna sautján kemur einnig fram að tilskipun Trumps frá 20. júní, um að halda eigi flóttafjölskyldum saman, sé blekkjandi.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert