Málamiðlunartillaga repúblikana um breytingar á löggjöf í innflytjendamálum Bandaríkjanna var kolfelld á löggjafarþingi landsins í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti studdi tillöguna, en höfnunin hefur mikil áhrif á tilraunir hans til þess að leysa krísuna sem uppi er við landamærin við Mexíkó.
Lagabreytingartillagan var felld með 301 atkvæði gegn aðeins 121. Allir demókratar felldu tillöguna, auk fjölda repúblikana sem fannst hún ekki taka nógu harkalega á ólöglegum innflytjendum.
Líklegt er að nú komi til enn takmarkaðri lagabreytingartillaga sem bindur enda á aðskilnað barna frá foreldrum sínum, en tekur ekki á fjáröflun landamæraveggs, vernd fyrir unga innflytjendur sem komu ólöglega inn í landið sem börn, eða skerðingu á löglegum innflytjendum.