Vísindamenn eru komnir skrefi nær því að þróa gervieggjastokka sem gætu hjálpað til við að varðveita frjósemi hjá konum sem hafa fengið krabbamein eða gengist undir meðferðir sem hafa áhrif á getu þeirra til þess að eignast börn.
Að því er segir í frétt Guardian hefur teymi vísindamanna á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í Danmörku sýnt fram á að eggjastokkur, þróaður úr eggjastokksvef, geti haldið eggjum á lífi vikum saman. Gefur frammistaðan vonir um að einn daginn verði þetta til þess að hjálpa konum sem gengist hafa undir skaðlegar lyfjameðferðir eða annars konar meðferðir við það að stofna fjölskyldu.
Nú þegar geta konur sem greinast með krabbamein látið fjarlægja vef úr eggjastokkum áður en þær hefja meðferð sem hefur áhrif á frjósemi. Þegar þær hafa jafnað sig að fullu geta þær svo fengið vefinn, sem hefur verið frystur, ígræddan að nýju og átt börn á náttúrulegan hátt.
Þessi tiltekna aðferð er örugg fyrir flesta, en krabbamein í eggjastokkum og hvítblæði, sem getur haft áhrif á eggjastokkana, getur valdið því að krabbameinið taki sig upp að nýju þegar vefurinn sem fjarlægður var er settur í. Af þessum ástæðum er meðferðin ekki í boði fyrir hááhættusjúklinga. Gervieggjastokkarnir sem eru í þróun gætu því verið lausn við slíku vandamáli.
Vísindamennirnir í Kaupmannahöfn notuðu efni til þess að fjarlægja allar frumur, þar á meðal mögulegar krabbameinsfrumur, úr eggjastokksvef. Þegar þeir höfðu sett fjölda eggja í eggjastokkinn og ígrætt hann í mús komust þeir að því að fjórðungur þeirra var enn á lífi eftir þrjár vikur. Susanne Pors, ein vísindamannanna, segir þetta sönnun fyrir því að hægt sé að halda eggjum á lífi í gervieggjastokk, en að það séu mörg ár þangað til hægt verði að framkvæma þetta á kvenlíkama.