Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Horst Seehofer innanríkisráðherra hafa náð samkomulagi um innflytjendamál og móttöku flóttamanna, en þau funduðu í Berlín í dag. Málamiðlunin felur m.a. í sér að settar verði upp móttökumiðstöðvar fyrir hælisleitendur á landamærum Þýskalands.
Merkel og Seehofer leiða systurflokkana CSU og CDU sem mynda ríkisstjórn í Þýskalandi ásamt Sósíaldemókrötum og hafa þau tekist á um innflytjendamál undanfarnar vikur. Á blaðamannafundum í kvöld greindu leiðtogarnir báðir frá því að um „góða málamiðlun“ væri að ræða.
Merkel sagði við blaðamenn að samkomulagið fæli í sér að settar yrðu upp móttökumiðstöðvar fyrir hælisleitendur í grennd við landamæri Þýskalands. Þar verða umsækjendur um hæli hýstir á meðan umsóknir þeirra eru metnar.
Seehofer hafði hótað því að segja af sér embætti innanríkisráðherra vegna deilnanna við Merkel en segir nú að hann ætli að halda áfram, þar sem málamiðlun hafi náðst í deilunni, sem hefur reynt verulega á ríkisstjórnarsamstarfið.
Innanríkisráðherrann sagði að skýrt samkomulag hefði náðst um það hvernig koma mætti í veg fyrir „ólöglega fólksflutninga“ yfir landamæri Austurríkis og Þýskalands, en Seehofer hefur verið talsmaður þess að þýska lögreglan geti vísað öllum hælisleitendum frá sem ekki geti framvísað gildum skílríkjum við komuna og einnig þeim sem hafi þegar sótt um hæli í öðrum ríkjum ESB.
Sósíaldemókratar þurfa að samþykkja málamiðlun samstarfsflokka sinna áður en hún tekur gildi.
Fréttin hefur verið uppfærð.