Þrjú ný mál gegn leikaranum Kevin Spacey eru til rannsóknar hjá bresku lögreglunni, samkvæmt heimildum BBC. Alls hafa yfir þrjátíu karlar stigið fram og sakað Spacey um kynferðislega áreitni og eða ofbeldi.
Af þeim eru sex mál til rannsóknar hjá bresku lögreglunni en leikarinn er sakaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart fimm mönnum þar í landi auk árásar á sjötta manninn.
Tvö nýju málanna áttu sér stað í London, í Westminster (1996) og Lambeth (2008). Þriðja málið í Gloucester árið 2013.
Leikarinn Anthony Rapp var sá fyrsti sem steig fram og sakaði bandaríska leikarann um kynferðislega áreitni en í nóvember 2017 sagði Rapp að Spacey hefði haft í frammi kynferðislega tilburði í hans garð árið 1986 þegar Rapp var 14 ára en Spacey 26 ára.