Forseti FIFA, Gianni Infantino, hefur boðið taílensku drengjunum tólf á úrslitaleikinn á HM í Moskvu 15. júlí en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði til fyrr í vikunni að drengirnir leiddu leikmenn inn á völlinn í úrslitaleiknum.
Infantino segist vonast til þess að drengjunum, sem eru á aldrinum 11-16 ára, verði bjargað fljótt og helst áður en úrslitaleikurinn fer fram. Tæpar tvær vikur eru síðan drengirnir lokuðust inni í hellinum ásamt knattspyrnuþjálfara sínum.
Drengirnir fundust á mánudag, níu dögum eftir að þeir lokuðust inni í hellinum og enn hefur ekki tekist að koma þeim til bjargar. Málið hefur vakið heimsathygli og eru knattspyrnumenn þar ekki undanskildir en drengirnir voru á heimleið eftir fótboltaæfingu þegar þeir fóru inn í hellinn og komust ekki út aftur vegna flóða.
Enski varnarmaðurinn, John Stones, er þeirra á meðal en hann segir að það sé skelfilegt að vita af þeim innilokuðum í hellinum og að enska liðið vonist til þess að þeir komist þaðan heilir á höldnu.
Japanska liðið hefur birt myndskeið á Twitter þar sem það hvetur þá til þess að þrauka og brasilíska goðsögnin Ronaldo segir hlutskipti þeirra hræðilegt. „Knattspyrnuheimurinn vonast til þess að fundin verði leið til þess að bjarga þessum börnum,“ segir Ronaldo í viðtali við CNN.
Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, hvetur drengina til þess að láta ekki bugast og að þeir verði að vita að knattspyrnuheimurinn standi með þeim.
„Við fylgjumst með öllum fréttum af þeim og vonumst eftir því að þið fáið að sjá dagsljósið að nýju,“ segir Klopp og bætir við að þeir vonist til þess að það gerist sem fyrst.
Króatíska knattspyrnusambandið segir á vef sínum að það dáist að styrk og ró ungu knattspyrnumannanna og þjálfara þeirra. Hvernig þeir takist á við raunir af æðruleysi.
Í nótt lést kafari á vegum taílenska hersins þar sem hann tók þátt í björgunaraðgerðum í Tham Luang-hellinum. Hann missti meðvitund á leið út úr hellinum eftir að hafa farið með súrefnisbirgðir inn í hellinn.
Magn súrefnis í hellinum hefur minnkað mjög og mælist nú aðeins 15% en er venjulega 21%. Drengirnir og þjálfari þeirra halda til á syllu í hellinum en ekki er hægt að koma þeim þaðan vegna flóða. Drengirnir eru flestir ósyndir auk þess sem tveir þeirra og þjálfari þeirra eru of máttfarnir til þess að hægt sé að koma þeim í burtu.
Yfirmaður í sjóher Taílands segir að fátt annað sé í boði en að taka áhættu og reyna að koma þeim sem fyrst út úr hellinum. Tíminn sé á þrotum og ekki hægt að bíða eftir að monsún-rigningum linni.
„Í fyrstu töldum við að börnin gætu verið þarna í langan tíma en nú hafa hlutirnir breyst og við höfum takmarkaðan tíma,“ sagði Apakorn Yookongkaew á fundi með fréttamönnum áðan.