Átta ára fangelsi fyrir Facebook-myndskeið

AFP

Líbönsk kona, sem var handtekin í síðasta mánuði fyrir að hafa birt á Facebook myndskeið þar sem hún kvartar undar kynferðislegri áreitni og aðstæðum í Egyptalandi, var í gær dæmd í átta ára fangelsi í Kaíró. Lögmaður hennar greinir frá þessu í dag að því er segir í frétt Al Jazeera. Hún segir í myndskeiðinu að hún hafi heimsótt Egyptaland nokkrum sinnum undanfarin fjögur ár.

Mona el-Mazbouh var handtekin á flugvellinum í Kaíró þegar hún var á leið úr landi en hún hafði stuttu áður birt 10 mínútna langt myndskeið á eigin Facebook-síðu þar sem hún gagnrýndi Egypta og Egyptaland harðlega.

Mazbouh, sem er 24 ára, sagði Egyptaland skítugt land og egypskir karlar væru dólgar og konur landsins druslur. Hún kvartaði undan því að hafa verið áreitt kynferðislega af hálfu leigubílstjóra og ungra karla á götum úti. Þjónustan á veitingahúsum væri léleg þegar Ramadan-fastan stæði yfir og síðan hafi peningum hennar og öðrum farangri hennar verið stolið.

Dómstóll í Kaíró dæmdi hana seka um að hafa vísvitandi dreift upplognum áróðri sem er til þess að fallinn að valda samfélaginu skaða. Dómnum hefur verið áfrýjað og mun áfrýjunardómstóll taka málið fyrir 29. júlí, að sögn lögmanns hennar, Emad Kamal.

Hann segir að með guðs vilja verði dóminum breytt. „Með fullri virðingu fyrir dómnum þá er þetta harkalegur dómur. Þetta er í samræmi við lög en dómurinn er þyngsta mögulega refsingin,“ segir Kamal.

Kamal segir að þegar Mazbouh hafi farið í uppskurð árið 2006 þar sem blóðkökkur var fjarlægður úr heila hennar hafi aðgerðin dregið úr getu hennar til þess að stjórna reiði sinni. Sýndi hann fram á þetta fyrir rétti. Eins glími hún við þunglyndi. Daginn áður en hún var handtekin birti Mazbouh annað myndskeið á Facebook þar sem hún bað egypsku þjóðina afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert