Látin eftir taugagaseitrun

Bresk kona sem var flutt þungt haldin á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir taugagaseitrun í Wiltshire á sunnudag er látin. Málið er rannsakað sem morð segir breska lögreglan. 

Dawn Sturgess, 44 ára, lést á gjörgæsludeild héraðssjúkrahússins í Salisbury í kvöld en hún og félagi hennar, Charlie Rowley, 45 ára, komust í snertingu við Novichok, sem er sama eitrið og notað var til að eitra fyrir Skripal-feðginunum í mars. 

Rowley liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi en þau veiktust 30. júní. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist vera miður sín og í áfalli yfir andláti Sturgess en bresk yfirvöld segja ljóst að eitrið sem var notað á Sergei og Juliu Skripal í Salisbury kom frá Rússlandi. 

Sturgess, sem er frá Durrington, verður krufin og búið er að tilkynna fjölskyldu hennar andlátið.

Hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar annast rannsókn málsins en um 100 liðsmenn hennar sinna rannsókninni ásamt lögreglunni í Wiltshire.

Ekki hefur tekist að finna út hvernig Sturgess og Rowley komust í snertingu við taugagasið en rannsóknir sýna að þau hafi snert hlut sem var mengaður af eitrinu. 

Frétt BBC

Samkvæmt frétt Sky hafa þau bæði glímt við fíkn, hún einkum áfengisfíkn en hann notað sterk fíkniefni lengi. Sturgess lætur eftir sig þrjú börn. 

Að sögn lögreglu hefur enginn leitað sér læknisaðstoðar vegna svipaðra einkenna og parið.  Sturgess missti meðvitund klukkan 10:15 30. júní og var hún flutt á sjúkrahús. Rowley veiktist aftur á móti fyrr en síðar þann sama dag. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka